Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Forréttindi hvítra eru kerfislæg“

01.06.2020 - 19:42
Mynd: EPA-EFE / EPA
Útgöngubann var sett á í um fjörtíu bandarískum borgum í nótt vegna mótmælaöldu sem nú gengur yfir landið. Trump Bandaríkjaforseti hvatti til þess í dag að tekið yrði harðar á mótmælendum. Barack Obama, fyrrverandi forseti, sagði reiði mótmælenda eiga rétt á sér og að mótmælin gætu orðið vendipunktur í bandarískri sögu. Mótmælandi í Washington segir forréttindi hvítra kerfislæg í Bandaríkjunum.

Mótmælin hófust fyrir viku eftir að George Floyd lést í haldi lögreglu í Minneapolis. Undanfarna daga hefur verið mótmælt af hörku um nær öll Bandaríkin, en mótmælendur komu saman í gærkvöld, sjötta daginn í röð. Myndband frá mótmælunum hefur farið víða í dag en þar sést stórum olíubíl ekið inn í hóp mótmælenda sem lokað höfðu hraðbraut í borginni. Þeir áttu fótum fjör að launa en ökumaðurinn var dreginn út úr bílnum og loks fluttur á sjúkrahús eftir átök við mótmælendur. 

Þjóðvarðliðið hefur verið kallað til í 25 ríkjum Bandaríkjanna, meðal annars í höfuðborginni Washington. Mótmælendur kveiktu elda í borginni og héldu síðan að Hvíta húsinu þar sem ólætin héldu áfram þar til þjóðvarðliðið, ásamt lögreglu, beitti táragasi gegn mótmælendum til að framfylgja útgöngubanninu. „Þetta land er alger steypa og hefur ætíð stundað þrælahald og svo farið með þræla sína sem þeir væru einskis virði; rænt þá réttindum sínum og mennsku. Forréttindi hvítra eru kerfislæg,“ sagði einn mótmælenda í Washington. 

Í miðborg Los Angeles komu þúsundir saman en þar er til rannsóknar atvik þar sem lögreglubíl var ekið á mótmælendur, en það var einnig gert í borginni San Diego í Kaliforníu. Í Fíladelfíu var mótmælt annan daginn í röð, þar sem lögreglubílar fengu að finna fyrir því, en mikil gremja er meðal mótmælenda í garð óeirðaseggja sem kasti rýrð á baráttu hinna fyrir réttlátara samfélagi, og að lögreglumennirnir fjórir sem tóku þátt í aðgerðum sem urðu George Floyd að bana fyrir viku, verði látnir svara til saka. Óeirðirn­ar eru sagðar end­ur­spegla djúp­stæð vanda­mál í banda­rísku sam­fé­lagi, kynþátta­hat­ur og lög­reglu­of­beldi.

Það voru einnig haldnir samstöðufundir í evrópskum stórborgum í dag, Lundúnum, París, Berlín og Zurich en Berlínarbúar voru ósáttir við viðbrögð Trumps Bandaríkjaforseta. Trump hvatti til þess í dag að laganna verðir mættu mótmælendum af meiri hörku. Hann segir að það eigi ekki að líðast að mótmælendur geti gengið um rænandi og ruplandi til lengdar. Mikil gremja er meðal mótmælenda í garð óeirðaseggja sem kasti rýrð á baráttu hinna fyrir réttlátara samfélagi. Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, tók undir þetta á samfélagsmiðlum í dag. Hann sagði að dauði George Floyd væri áminning um fordóma og ójöfnuð í bandarísku samfélagi sem blönduðust nú þeim erfiðleikum sem fylgdu kórónuveirufaraldrinum. Hann hvatti þó til þess að mótmælendur beindu réttlætanlegri reiði sinni í friðsamlegar aðgerðir, því þá gætu mótmælin orðið vendipunktur í sögu þjóðarinnar.