Flugmaður mislas eldsneytisstöðu og sveif til lendingar

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Flugmaður Piper-vélar, sem flaug með ljósmyndara til að taka mynd af annarri flugvél á flugi, varð eldsneytislaus í 200 feta hæð yfir flugbrautinni á flugvellinum á Akureyri. Hann sveif til lendingar og þurfti aðstoð við að aka flugvélinni út af flugbrautinni. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að flugmaðurinn hafi mislesið eldsneytisstöðuna áður en lagt var af stað.

Þetta kemur fram í bókun rannsóknarnefndar samgönguslysa sem lokaði málinu 28. maí.  Atvikið kom upp í byrjun mars.  

Í bókun nefndarinnar segir að flugmaðurinn hafi metið, áður en lagt var af stað, að eldsneytið myndi duga í eina klukkustund og 45 mínútur.  Áætlaður flugtími hafi verið klukkustund og tíu mínútur og því hefði átt að vera eftir 35 mínútur af flugþoli.

Lagt var af stað frá flugvellinum á Akureyri. Flogið var framhjá Hraundröngum í Öxnadal og síðan yfir botni Glerárdals en tilgangurinn var að taka myndir af annarri flugvél á flugi. Í dalnum miðjum fór hreyfill vélarinnar að hiksta.  Flugmaðurinn leit þá á eldsneytisstöðuna í nefi vélarinnar og sá að geymirinn þar var tómur. Hann vissi af eldsneyti í vinstri væng og skipti yfir á hann en allri myndatöku var hætt og flogið í átt að flugvellinum á Akureyri.

Þegar flugvélin var yfir Súlumýrum hafði flugmaðurinn samband við flugumferðarstjóra í flugturninum á Akureyri. Hann fékk að vita að hann væri númer tvö í röðinni.  Þegar vélin var í 2.000 fetum yfir Leiruvegi var flugmaðurinn beðinn að taka hring yfir bænum til að hleypa öðrum vélum í loftið.

Flugmaðurinn sagðist hins vegar ekki geta það því hann væri að verða eldsneytislaus.  Fékk hann því forgang og í um 200 feta hæð missti hreyfill vélarinnar afl. Vélin sveif því til lendingar og lenti án vandkvæða. Flugmaðurinn þurfti síðan aðstoð til að aka henni út af flugbrautinni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa skoðaði eldsneytisgeymi í nefi vélarinnar til að athuga hvort svokallað sjónglas gæfi upp rétt eldsneytismagn.  Reyndist ekkert vera að því.

Er niðurstaða nefndarinnar því sú að flugmaðurinn hafi mislesið af sjónglasinu í skoðun fyrir flugið. Hún bendir jafnframt á svipað atvik fyrir 11 árum og brýnir fyrir flugmönnum að ganga úr skugga um að nægjanlegt eldsneyti sé til staðar áður en lagt er af stað. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi