Ákærð fyrir að stefna farþega og vegfarendum í hættu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur konu á fimmtugsaldri fyrir að hafa, í apríl í fyrra, stefnt vegfarendum, lögreglu og einum farþega í mikla hættu þegar hún ók á 130 kílómetra hraða á klukkustund og reyndi að stinga lögreglu af.

Í ákærunni kemur fram að konan hafi ekið án gildra ökuréttinda og verið óhæf til að stjórna bílnum með öruggum hætti vegna áhrifa neyslu fíkniefna. Hún hafi ekki sýnt næga tillitssemi og varúð og ekki miðað ökuhraða við aðstæður og hraðatakmarkanir í þéttbýli. 

Við Dalveg í Kópavogi reyndi lögreglan að fyrst stöðva förina. Á gatnamótum Dalvegar og Hlíðarhjalla ók konan yfir á vinstri vegarhelming á móti umferð. Á gatnamótum Nýbýlavegar og Breiðholtsbrautar ók hún yfir á rauðu ljósi. Hún jók hraðann á Breiðholtsbraut og segir í ákærunni að hann hafi verið allt að 130 kílómetrar á klukkustund á vegarkafla við Torfufell þar sem hámarkshraðinn er 50 kílómetrar. Skömmu síðar tókst lögreglu að stöðva för hennar en þá stakk hún lögreglu af og ók utan í hurð lögreglubíls. Hún fór út úr bílnum við Iðufell. Við skýrslutöku hjá lögreglu gaf hún upp nafn og kennitölu annarrar manneskju.

Í ákærunni segir að með akstrinum hafi hún raskað umferðaröryggi í alfaraleið og stofnað, á ófyrirleitinn hátt, lífi og heilsu farþega sem var í bílnum í augljósan háska, svo og annarra vegfarenda, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn. Þess er krafist í ákærunni að hún verði dæmd til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og verði svipt ökuréttindum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi