96% Íslendinga vilja Biden frekar en Trump

epa08290130 Democratic candidate Joe Biden speaks about the coronavirus at the Hotel Du Pont in Wilmington, Delaware, USA on 12 March 2020. The U.S. has topped 1,000 confirmed cases of coronavirus.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
Um 96 prósent Íslendinga myndu kjósa Joe Biden í bandarísku forsetakosningunum, ef þeir hefðu kosningarétt, en aðeins fjögur prósent myndu kjósa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Stuðningsmenn Miðflokksins eru líklegastir til að kjósa Trump og næst þeim koma stuðningsmenn Sósíalistaflokksins.

Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem fyrirtækið EMC rannsóknir gerði í maí. Ef aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu segjast tvö prósent kvenna og sex prósent karla myndu kjósa Trump. Aðrir myndu kjósa Biden. Stuðningur við Trump er minnstur meðal kjósenda undir 35 ára aldri, eitt prósent, en mestur meðal fólks yfir 55 ára aldri, sex prósent.

Biden nýtur hundrað prósenta stuðnings hjá fylgismönnum Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins. Tvö prósent stuðningsmanna Vinstri grænna og þrjú prósent Pírata lýsa stuðningi við Trump. Það sama gera sjö prósent þeirra sem kjósa Flokk fólksins og átta prósent Sjálfstæðismanna. Fjórtán prósent stuðningsmanna Sósíalista og 29 prósent Miðflokksmanna myndu kjósa Trump, samkvæmt könnuninni, ef þeir hefðu kosningarétt.

Þegar fólk er spurt hvor sé líklegri að fagni sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, Trump eða Biden, skiptist fólk í tvær nær jafn stórar fylkingar. 50,1 prósent telja Trump sigurstranglegri og 49,9 prósent telja Biden standa uppi sem sigurvegara. 

Könnunin var gerð 25. til 31. maí og fór fram á netinu. 700 svarendur í svarendahópi EMC rannsókna tóku þátt. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi