Thuram heiðraði minningu Floyd í sigri Gladbach

epa08456251 Moenchengladbach's Marcus Thuram reacts after scoring the 2-0 lead during the German Bundesliga soccer match between Borussia Moenchengladbach and Union Berlin in Moenchengladbach, Germany, 31 May 2020.  EPA-EFE/MARTIN MEISSNER / POOL CONDITIONS - ATTENTION: The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Thuram heiðraði minningu Floyd í sigri Gladbach

31.05.2020 - 15:20
Borussia Mönchengladbach fór upp í þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 4-1 heimasigur liðsins á Union Berlín á Borussia-vellinum í Mönchengladbach í dag. Franski framherjinn Marcus Thuram sendi stuðningsyfirlýsingu vestur um haf eftir annað marka sinna í leiknum.

Gladbach var í fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti en þau fjögur efstu í deildinni veita keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu að ári. Berlínarliðið var í 14. sæti með 31 stig, sex stigum frá fallsæti og fjórum frá umspilssæti um fall.

Heimamenn voru umtalsvert sterkari til að byrja með og kom Florian Neuhaus liðinu í forystu eftir rúmlega stundarfjórðungsleik. 1-0 stóð fram á 41. mínútu þegar franski framherjinn Marcus Thuram tvöfaldaði forystu Gladbach með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf landa síns Alessane Plea.

Gestirnir frá Berlín hófu síðari hálfleikinn betur en þann fyrri. Svíinn Sebastian Andersson minnkaði muninn fyrir Union eftir aðeins fimm mínútna leik í hálfleiknum en það tók Thuram aðeins tíu mínútur að endurnýja tveggja marka forskot Gladbach. Aftur skoraði hann eftir stoðsendingu frá Plea. Það var svo Plea sjálfur sem gerði út um leikinn með fjórða marki Gladbach tæpum tíu mínútum fyrir leikslok.

Gladbach vann 4-1 og fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar með 56 stig, líkt og Bayer Leverkusen í því fjórða. Dortmund er stigi meira í öðru sæti og RB Leipzig stigi minna í því fimmta. Dortmund mætir Paderborn klukkan 16:00 í dag og Leipzig heimsækir Köln annað kvöld.

Thuram kraup á hné

Thuram vakti athygli með fagni sínu eftir fyrra markið. Hann fagnaði með því að krjúpa á annað hné. Það er vísun í iðju þeldökkra bandarískra íþróttamanna, til að mynda Colin Kaepernick, sem hafa kropið undir þjóðsöng Bandaríkjanna á íþróttaviðburðum til að mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum.

George Floyd er síðasta dæmið um slíkt ofbeldi en hann var myrtur af lögreglumanni í Minneapolis á mánudag. Mikið óeirðabál hefur kviknað í Bandaríkjunum síðan en fjöldamótmæli hafa átt sér stað í minnst 75 borgum. Krafa er gerð um að lögreglumennirnir sem urðu Floyd að bana séu sóttir til saka.

Thuram fetar þar með í fótspor Bandaríkjamannsins Westons McKennie, fyrirliða Schalke, sem bar skilaboð til stuðnings baráttunni á fyrirliðabandi sínu er liðið tapaði fyrir Werder Bremen í þýsku deildinni í gær.

Thuram á ekki langt að sækja réttlætiskenndina en faðir hans Lilian Thuram, leikjahæsti landsliðsmaður Frakklands frá upphafi, hefur snúið sér að mannréttindabaráttu eftir að ferli hans lauk árið 2008. Thuram eldri hefur vakið athygli fyrir ötullega baráttu sína fyrir réttindum minnihlutahópa í frönsku samfélagi. Hann var gerður að sendiherra hjá UNICEF árið 2010 og hefur á þeim vettvangi komið á fót verkefnum sem vinna gegn kynþáttahatri.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fyrirliði Schalke kallar eftir réttlæti í máli Floyd