Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rúmlega 300 skjálftar í grennd við Grindavík

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Jarðskjálftavirkni í grennd við Grindavík hefur aukist um helgina. Rúmlega 300 skjálftar hafa mælst, sá stærsti 2,7 á fjórða tímanum í gær. Veðurstofunni bárust tilkynningar um skjálfta sem fannst í Grindavík í nótt og mældist 2,5 að stærð. Síðustu vikur hafði heldur dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga en rúmlega 120 jarðskjálftar mældust þar í síðustu viku.

Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrr í vikunni hafi gögn bent til þess að landris væri hafið að nýju við Þorbjörn, þó hægt sé. Skjálftavirknin gæti verið afleiðing þess en beðið er frekari gagna til að vinna úr. Hulda segir að stöku eftirskjálftar hafi mælst en mesta hrinan virðist vera yfirstaðin. Það kæmi henni þó ekki á óvart ef eitthvað færi aftur í gang.

Óvissustig almannavarna vegna landriss vestan við fjallið Þorbjörn er enn í gildi en því var lýst yfir í janúar.