Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Geimferð gengur giftusamlega

31.05.2020 - 04:15
Erlent · Elon Musk · geimferðir · NASA · SpaceX
In this image take from NASA video, astronauts Christina Koch, left, moves away as Jessica Meir, right, exits a hatch as they prepare to install batteries for the International Space Station's solar power grid during a space walk, Monday, Jan. 20, 2020. (NASA via AP)
Geimfararnir Christina Koch og Jessica Meir í geimgöngu við alþjóðlegu geimstöðina í byrjun vikunnar. Mynd: ASSOCIATED PRESS - NASA
Geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken sitja um borð í geimfari SpaceX fyrirtækisins sem skotið var á loft um klukkan hálf átta í gærkvöldi og stefna í átt að alþjóðlegu geimstöðinni. Þetta er fyrsta mannaða geimferð Bandaríkjamanna í næstum áratug.

Fimmtán þjóðir sameinuðust árið 1998 við að koma geimstöðinni á laggirnar. Þar fara fram rannsóknir í líffræði, efnafræði, læknisfræði og fleiri greinum. Á stjörnufræðivefnum kemur fram að í geimstöðinni sé hægt að gera prófanir á ýmsu því sem þarf til að mannaðir leiðangrar til tunglsins og Mars geti orðið að veruleika.

Musk er hrærður

SpaceX er í eigu milljarðamæringsins Elon Musk sem sagðist vera bæði glaður og hrærður yfir því að loksins hefði átján ára undirbúningsvinna borið ávöxt.

Hann er vonglaður um að ferðin sé til marks um að fyrsta skrefið í átt að landnámi mannsins á Mars hafi verið stigið.

Með þessu tilraunaflugi hættir ríkið að sitja eitt að geimferðum Bandaríkjamanna. Heppnist ferðin giftusamlega fær farið staðfestingu Bandarísku geimferðastofnunarinnar á að hana megi nota áfram til mannaðra geimferða.

Þáttaskil

Jim Bridenstine stjórnandi stofnunarinnar sagði geimskotið tákna mikilvæg þáttaskil fyrir bandarísku þjóðina. Hann vildi þó halda öllum fagnaðarlátum í lágmarki þar til geimfararnir sneru heilu og höldnu aftur til jarðar.

Geimfarinn Hurley sagði að þeir Behnken hefðu ákveðið að gefa geimfarinu heiti líkt og venja hefði verið frá upphafi geimferða. Nafnið „Endeavour" varð fyrir valinu eftir geimskutlunni sem þeir báðir flugu.

Hún var ein fimm nothæfra skutlna sem byggðar voru og fóru í samtals 135 ferðir á árabilinu 1981 til 2011.

Gert er ráð fyrir að þeir félagarnir muni leggja upp að alþjóðlegu geimstöðinni rétt fyrir klukkan hálf þrjú í dag að íslenskum tíma.

Þar munu Bandaríkjamaðurinn Chris Cassidy og Rússarnir Anatoly Ivanishin og Ivan Vagner taka á móti þeim.