Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einræðistilburðir koma í bakið á Bolsonaro

Mynd: EPA-EFE / EFE
Nýverið tók Brasilía fram úr Rússlandi í þeirri óöfundsverðu keppni um hvar hafa flest kórónuveriusmit verið greind. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri greinst smitaðir en í Brasilíu, en tilfellum fjölgar þar hratt. Líkt og Bandaríkjunum hefur forseti landsins verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við útbreiðslu veirunnar.

Jair Bolsonaro hefur frá fyrsta degi neitað að horfast í augu við afleiðingar Covid-19 og hvatt landsmenn til að virða tilmæli ríkisstjóra Brasilíu um sóttkví að vettugi. En þetta bagalega ástand er þó ekki það sem er efst í huga Bolsonaro um þessar mundir. 

Óheppilegt myndband frá ríkisstjórnarfundi 

„Ég hef vald og vilja til að hafa afskipti af öllum ráðuneytum, undantekingalaust,“ sagði Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, á ríkisstjórnarfundi 22. apríl. Það er kannski ekki óvanalegt að forsetar sem fari með meiri völd innan síns lands, heldur en til að mynda forsetar Íslands og Þýskalands -  þar sem kanslarar og forsætisráðherrar eru alla jafna valdamestu embættin - séu með puttana ofan í málum einstakra ráðuneyta. Nærtækt dæmi er forseti Bandaríkjanna. En séu ummæli forsetans sett í rétt samhengi, fá þau öllu alvarlegri blæ. Jair Bolsonaro er hér að lýsa reiði sinni yfir hve treglega honum hefur tekist að gera breytingar á því hverjir fari með tögl og haldir innan alríkislögreglunnar þar í landi. Nú ætli hann að taka til sinna ráða þar sem hann sé jú, forsetinn.

„Ég hef reynt að breyta öryggismálunum í Ríó, löglega og opinberlega, en án árangurs. Því er nú lokið. Ég bíð ekki eftir því að þeir leggi líf fjölskyldu minnar og vina í rúst, bara til gamans. Bara af því að ég get ekki skipt út einhverjum úr öryggisgæslunni ef það passar ekki við skipuritið. Þessu skal ég breyta.  Ef ég get ekki skipt honum út, skipti ég út yfirmanni hans, og ef það gengur ekki skipti ég um ráðherra. Punktur og basta. Ég er ekki að grínast,“ sagði Jair Bolsonaro. 

En hvers vegna vill forsetinn hafa puttana í því hverjir halda um stjórnartaumana hjá alríkislögreglunni? Jú, því það er eins og hann segir á upptökunni; nánir ættingjar hans eru grunaðir um spillingu. Synir forsetans, Flavio og Carlos, sem báðir eru stjórnmálamenn, sæta nefnilega rannsókn og eru grunaðir meðal annars um peningaþætti, fjárdrátt, og fyrir að hafa brotið lög sem gilda um kosningabaráttu. 

Bolsonaro stóð við stóru orðin, tveimur dögum síðar rak hann yfirmann brasilísku alríkislögreglunnar. Eftir að hæstiréttur landsins gerði upptökuna af fundinum opinbera, þá sem þið heyrðuð hér áðan, hefur bókstaflega allt logað í Brasilíu. Getur verið að forsetinn, sem er jú vægast sagt umdeildur, sé með jafn beinum hætti að koma í veg fyrir að fólk í fjölskyldu hans sæti rannsókn vegna gruns um að það hafi gerst brotlegt við lög? Til viðbótar logar Brasilía líka vegna Covid-19, og er það ekki síst vegna viðbragða Bolsonaros, sem hefur ítrekað talað niður þennan vágest sem hefur haldið heiminum öllum í heljargreipum frá því í byrjun mars.

epa08450154 President of Brazil Jair Bolsonaro speaks to the media about an operation carried out by the Federal Police on 27 May within an investigation into threats and dissemination of false news against the Supreme Court, outside the Palacio do Alvorada, the headquarters of the Brazilian Presidency, in Brasilia, Brazil, 28 May 2020.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.

Hermaðurinn sem fór á þing

Hinn umdeildi Jair Bolsonaro fæddist í bænum Glicérí í Sao Paulo í suðausturhluta Brasilíu 21. mars 1955. Hann er kominn af Ítölum og Þjóðverjum, sem líkt og Vesturfararnir íslensku lögðu land undir fót í lok nítjándu aldar - í leit að betra lífi. Það fundu forfeður Bolsonaro á blómlegum ökrunum þar sem nú stendur stórborgin Sao Paulo. Þar ólst Bolsonaro upp, og það var þar sem hann innritaði sig í fjölmennasta herskóla landsins, í borginni Campinas skammt frá Sao Paulo - árið 1974. Þremur árum síðar gekk hann til liðs við herinn, en snemma varð ljóst að Bolsonaro væri líklega ætlað annað hlutverk en að gegna herþjónustu.

Nokkrum árum síðar vakti hann mikla athygli fyrir grein sem hann skrifaði í fréttablaðið Veja, hvar hann gagnrýndi harðlega bágborin laun liðsforingja í hernum. Var honum fyrir vikið stungið í steininn í fimmtán daga, í refsingarskyni. Tveimur árum síðar var hann orðinn höfuðsmaður í hernum, en það áttu eftir að verða síðustu afskipti hans af hernum - allavega sem liðsmaður hans. Sama ár var hann nefnilega kosinn í borgarstjórn Rio de Janeiro, fyrir flokk Kristilega demókrata, flokk sem á lítið skylt við alnafna sinn í Þýskalandi, en sá brasilíski byggir starf sitt á sterkum kristnum gildum, með dassi af bókstafstúlkun. 

Árið 1990 var hann kosinn í neðri deild brasilíska þingsins og gegndi embætti þingmanns í heil 27 ár; eða allt þar til hann tók við forsetaembættinu. 

Umdeildur þingmaður

Í tíð sinni sem þingmaður varð Bolsonaro þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum, skoðunum sem höfðuðu fremur til hinna íhaldssömu, strangtrúðu og fátæku. Hann lagðist alla tíð gegn því að samkynja hjónabönd yrðu leyfð, talaði niður til samkynhneigðra, var svarinn andstæðingur lögleiðingar þungunarrofs - og annarra þátta sem hafa jafnt og þétt rutt sér til rúms víða á Vesturlöndum síðustu ár og áratugi. Þátta sem alla jafna teljast til mannréttinda. Og utanríkismálin? Hvar skyldi Bolsonaro standa þar? Jú, þú giskaðir rétt. Hann lagði höfuðáherslu á það allan sinn þingmannsferil að styrkja tengsl Brasilíu við Bandaríkin og Ísrael. 

Í byrjun árs 2018 færði Bolsonaro sig um set og gekk til liðs við PSL-flokkinn, flokk frjálslyndra jafnaðarmanna. Það heitir hann allavega, en flokkurinn þykir þó mjög íhaldssamur og þjóðernispopúlískur. Um sumarið 2018 var svo tilkynnt að Bolsonaro hefði verið útnefndur forsetaefni flokksins og bauð hann sig fram undir slagorðinu „Guð ofar öllum.“ 

Þrátt fyrir að vera mjög umdeildur í heimalandinu, á Bolsonaro sannarlega sína fylgismenn. Svo marga að í kosningunum síðar sama ár fékk hann 55,13 prósent atkvæða.

Í upphafi síðasta árs tók hann svo formlega við störfum sem 38. forseti Brasilíu. 

epa07077892 Supporters of the Liberal Social Party (PSL), party of far-right candidate Jair Bolsonaro, celebrate in front of the candidate's house in Rio de Janeiro, Brazil, 07 October 2018. Far-right deputy Jair Bolsonaro, candidate of the Social
Stuðningsmenn Bolsonaros í Rio de Janeiro fögnuðu ákaft þegar niðurstöður voru kunnar. Mynd: EPA-EFE - EFE
Stuðningsmenn Bolsonaros fagna kjöri hans til forseta fyrir framan heimili hans í Ríó.

Ber niður sósíalisma og hækkar lífeyrisaldur

Ef þú heldur að vera Donalds Trump á forsetastóli í Bandaríkjunum frá árinu 2016 hafi verið róstusöm, og jafnvel lygileg á köflum, kæri hlustandi - þá rekur þig kannski í rogastans þegar þú áttar þig á því að Jair Bolsonaro hefur aðeins verið við völd í Brasilíu í eitt og hálft ár. Fáir þjóðarleiðtogar, að frátöldum kollega hans í Bandaríkjunum, hafi vakið jafn mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum á síðasta ári og Bolsonaro. Það myndi þó æra óstöðugan að fara að telja það allt upp hér.

Það er þó vert að nefna að Bolsonaro er langt til hægri á ás stjórnmálanna, og hefur meðal annars sagt að hann horfi löngunaraugum til þeirra ára sem einræðisherrar réðu ríkjum í Brasilíu. Áður en hann tók við embætti sór hann að hann myndi berjast gegn spillingu, berja niður sósíalisma og taka hart á glæpamönnum og glæpastarfsemi í þessu fjölmennasta landi rómönsku Ameríku. 

En Bolsonaro hefur gert eitt og annað jákvætt, þá sér í lagi fyrir brasilískan efnahag. Ríkisstjórn hans kom í gegn breytingum á lögum um lífeyrisgreiðslur. Nú komast karlmenn fyrst á ellilífeyri 65 ára í stað 56 ára, og konur 62 ára í stað 53 ára. Talið er að lögin komi til með að spara ríkinu þúsundir milljarða næsta áratuginn. Þá minnkaði atvinnuleysi í landinu fyrstu sex mánuði hans í starfi. 

epaselect epa08432204 A gravedigger rests in the Vila Formosa cemetery, in Sao Paulo, Brazil, 18 May 2020 (issued 19 May 2020). Twelve hours and 62 burials. A day without respite in which there is no time to pray to the deceased. This is the daily routine of the gravediggers of the Brazilian cemetery of Vila Formosa, the largest in Latin America, in the middle of a coronavirus pandemic. 'It is one body after another, we do not stop.' Throughout Brazil, nearly 17,000 Covid-19 deaths and more than 250,000 coronavirus infections are recorded.  EPA-EFE/Fernando Bizerra  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
Grafreitur fyrir þá sem látist hafa úr COVID-19 í Sao Paulo. Mynd: EPA-EFE - EFE
Grafari hvílir lúin bein í Vila Formosa kirkjugarðinum í Sao Paulo. 62 grafir voru teknar á innan við 12 klukkustundum þar í síðustu viku.

Í afneitun vegna Covid-19

Bolsonaro hefur þó ekki alltaf tekist vel til. Síðustu mánuðir hafa reynst honum erfiðir. Hvers vegna? Jú, vegna kórónuveirunnar, en Brasilía er nú það land hvar næst flest smit hafa greinst, á eftir Bandaríkjunum. Rúmlega 400 þúsund smit hafa greinst í landinu og yfir 25 þúsund látið lífið. Og Bolsonaro hefur fengið sinn skerf af gagnrýni fyrir viðbrögð sín við útbreiðslu veirunnar. Líkt og Trump í Bandaríkjunum gerði hann lítið úr mætti hennar og lagði áherslu á að fólk sinnti vinnu sinni og léti hjól atvinnulífsins snúast. Ríkisstjórar einstakra ríkja í Brasilíu, sem hafa töluverð völd, eru margir hverjir ósammála Bolsonaro og hafa sett lög sem ganga gegn tilskipunum forsetans, honum til mikillar gremju. 

Fjöldi greindra smita í Brasilíu hefur tvöfaldast á tveggja vikna fresti um nokkurt skeið. Til samanburðar tók það Bretland tvo mánuði, Frakkland fjóra mánuði og Ítalíu fimm mánuði. Á meðan ástandið versnar sýnir forsetinn engin merki þess að hann taki útbreiðslu veirunnar alvarlega. Nú síðast á sunnudaginn heilsaði hann upp á stuðningsmenn sína á fjöldafundi þar sem hundruð voru samankomin, og gæddu sér á pylsu. 

En kannski er Bolsonaro að reyna að taka athyglina frá öðru og mikilvægara máli í hans huga? Fjölskyldu sinni, jafnvel?

Bræður í bobba

Víkur þá sögunni aftur að ríkisstjórnarfundinum þann 22. apríl. Sem fyrr segir var Bolsonaro ósáttur við  hve litlar upplýsingar hann fékk frá alríkislögreglunni, sem rannsakaði ásakanir á hendur sonum hans. Flavio Bolsonaro er sakaður um fjárdrátt og peningaþvætti. Carlos, sem er árinu yngri en Flavio, er gefið að sök að hafa reynt að klekkja á andstæðingum sínum í kosningabaráttu með ólöglegum hætti. Báðir eiga þeir sæti í efri deild brasilíska þingsins og hefur alríkislögreglan rannsakað þessar ásakanir. 

Á ríkisstjórnarfundinum jós faðir þeirra úr skálum reiði sinnar yfir því að hann hefði ekki fulla stjórn á hverjir færu með völd innan alríkislögreglunnar. 

„Ég er með alríkislögregluna, sem gefur mér ekki upplýsingar. Ég er með leyniþjónustu hersins, sem gefur mér ekki upplýsingar,“ sagði Bolsonaro, hvumsa yfir þessu ástandi. Hvað gera bændur þá? Eða forsetar, jú, þeir taka til sinna ráða. 

Tveimur dögum síðar var Mauricio Valeixo, yfirmanni alríkislögreglunnar sem hefur mál sona hans til rannsóknar, sagt upp störfum. Nær samstundis sagði Sergio Moro, dómsmálaráherra af sér. Í kjölfarið sakaði Moro forsetann um að hafa rekið Valeixo vegna þess að hann hafi ekki viljað útvega forsetanum leynileg gögn sem höfð voru til rannsóknar á málum sona hans. Ríkissaksóknari Brasilíu hefur síðan þá haft til rannsóknar þessar ásakanir fyrrverandi dómsmálaráðherrans í ríkisstjórn Bolsonaros.

Myndbandið umdeilda frá ríkisstjórnarfundinum er hluti af þeirri rannsókn, og átti aldrei að fara í almenna dreifingu. Hæstiréttur landsins úrskurðaði hins vegar svo að það yrði gert og er það nú notað sem sönnunargagn í rannsókninni á meintum afskiptum Bolsonaros af glæparannsókn á hendur sonum hans.

Það hefur hitnað undir Bolsonaro síðan myndbandið var birt, en sjálfur gerir hann lítið úr málinu. 

„Þetta er annar farsi. Það er ekki ein sekúnda á þessari upptöku sem bendir til þess að ég hafi haft afskipti af ríkislögreglunni. Mér þykir leitt að sjá að enn leikur Sergio Moro fórnarlambið. Ég skil ekki hvað honum gengur til,“ sagði Bolsonaro. 

epa07308132 Brazil's Justice Minister Sergio Moro speaks during a panel session on the first day of the 49th annual meeting of the World Economic Forum (WEF) in Davos, Switzerland, 22 January 2019. The meeting brings together entrepreneurs, scientists, corporate and political leaders in Davos under the topic 'Globalization 4.0' from 22 to 25 January 2019.  EPA-EFE/LAURENT GILLIERON
Sergio Moro var dómari í spillingarmálum gegn stjórnmálamönnum. Hann er nú dómsmálaráðherra. Mynd: Laurent Gillieron - EPA
Sergio Moro, fyrrum dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Bolsonaros.

Erfiðir tímar framundan 

Þótt Bolsonaro standi beinn í baki og telji sig ekki hafa gert neitt rangt, er ljóst að hann á nú undir högg að sækja. Sergio Moro var vinsæll stjórnmálamaður sem naut trausts meðal almennings og afsögn hans fékk landsmenn til að efast enn frekar um stjórnunarhætti Bolsonaros. Myndbandið hjálpaði forsetanum heldur ekki, og það í miðjum kórónuveirufaraldri sem hefur leikið Brasilíu grátt.

Stuðningur við forsetann hefur hríðfallið samkvæmt könnun sem gerð var fyrir rúmum tveimur vikum vegna viðbragða hans við Covid-19. Það var áður en hæstiréttur landsins gerði myndbandið umdeilda opinbert. Á sama tíma jókst stuðningur við einstaka ríkisstjóra landsins, sem hafa margir hverjir þótt standa sig vel í baráttunni við útbreiðslu veirunnar.

Þá hefur alríkislögreglan að undanförnu gert rassíur á heimili nokkurra stuðningsmanna Bolsonaros, en það er hluti af enn einni rannsókninni sem snýr að útbreiðslu falsfrétta sem er ætlað að sýna fram á sakleysi sona forsetans. Það virðist því vera svo að Jair Bolsonaro hafi langt í frá fulla stjórn á öllu því sem gerist í Brasilíu, þótt hann vilji það gjarnan.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður