Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja slökkvibíl í Skorradal vegna eldhættu

30.05.2020 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Skorrdælir vilja byggja aðstöðu fyrir slökkvibíl í dalnum. Með því vilja þeir tryggja styttri viðbragðstíma ef gróðureldar kvikna í dalnum.

Þurrkatíð síðasta sumars skapaði mikla eldhættu á Vesturlandi. Sérstaklega mikil hætta var í skóglendinu í Skorradal þar sem Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir óvissustigi vegna eldhættu. Nú þegar sumarið gengur í garð eykst eldhætta á ný. Þá vöktu gríðarmiklir gróðureldar í Norðurárdal nýlega einnig ugg og slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð hafði orð á því að gróðurelda ætti að flokka sem náttúruvá í lögum. Árni Hjörleifsson er oddviti í Skorradalshreppi.

„Sumarið í fyrra var náttúrulega einstaklega hættulegt vegna þess hvað það var þurrt og gott en ég held nú að það hafi tekist vel að upplýsa fólk um það að fara varlega. Og öll þessi umræða í kringum þessa varnir náttúrulega kviknaði svolítið mikið í kringum þetta,“ segir Árni

Áformað er að hafa slökkvibíl staðsettan í dalnum. Ásamt honum verður aðstaða fyrir björgunarsveit og aðra. Verið er að velja staðsetningu í samráði við landeigendur, slökkvilið og björgunarsveit. Óvíst er með kostnað á þessu stigi málsins en Árni segist binda vonir við að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.

Hann segir þó fleira standa út af ef tryggja á öryggi Skorrdæla ef eldar kvikna. Þar er þörf á vegagerð einna brýnust.

„Til þess að tryggja flóttaleiðir úr dalnum ef það kviknar í. Því það er alveg gefið mál ef að slökkvibílar og annað ætluðu að fara inn eftir dalnum og umferð á móti að það yrði tómt havarí. Þannig við höfum lagt mikla áherslu á það að það yrði líka horfið til þessara þátta.“