Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrumuveður gæti enn tafið geimskot

30.05.2020 - 00:47
Erlent · Bandaríkin · Elon Musk · Flórída · NASA · SpaceX
Mynd með færslu
Eldlaug á vegum SpaceX á skotpalli við Vandenberg-flugherstöðina í Kaliforníu í janúar 2016. Mynd: EPA - NASA/BILL INGALLS
Lokaákvörðun um hvort reynt verður að skjóta Dragon flaug SpaceX á loft frá Kennedy geimflaugstöðinni á Florida annað kvöld veltur á veðri.

Tíðin hefur verið heldur rysjótt á Flórída undanfarna daga og þrumuveður frestaði fyrirhuguðu geimskoti á miðvikudag. Spáin fyrir laugardagskvöld er svipuð.

Nokkur spenna hefur ríkt vegna þessarar fyrstu mönnuðu geimferðar frá Bandaríkjunum í næstum áratug. Auk þess væri þetta í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki tækist að koma mannaðri geimflaug á loft.

Forsvarsmenn NASA leggja mikla áherslu á að auka áhuga á geimferðum á ný, enda eru miklar áætlanir uppi um könnun sólkerfisins.

Verði ekki hægt að skjóta flauginni á loft á laugardag verður reynt aftur klukkan sjö á sunnudagskvöldið.

Geimfararnir Robert Behnken og Douglas Hurley bíða þess að geta lagt upp frá skotpalli 39A í tveggja þrepa SpaceX Falcon 9 eldflauginni. Þeir voru í tveggja vikna sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins áður en fyrsta tilraunin var gerð.

Sami skotpallur var notaður árið 1969 þegar Neil Armstrong og félagar hans lögðu upp í sögulega ferð sína til tunglsins í Apollo 11 geimfarinu.

Vegna faraldursins hefur NASA ráðlagt fólki að halda sig fjarri Cocoa Beach þaðan sem hefð hefur verið fyrir að fylgjast með geimskotum. Þau varnaðarorð dugðu þó ekki alveg því fjöldi fólks safnaðist saman til að fylgjast með á miðvikudaginn var.

Líklegt er talið að Trump Bandaríkjaforseti muni mæta á ný til að fylgjast með geimskotinu.