Þjóðvarðlið kallað út í fyrsta sinn frá seinna stríði

30.05.2020 - 19:26
Mynd: EPA-EFE / EPA
Allt þjóðvarðlið Minnesota hefur verið kallað út í fyrsta skipti frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Mótmælin í ríkinu halda áfram og hvetja ráðamenn mótmælendur til að hætta gripdeildum og skemmdarverkum.

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin var í gær handtekinn og ákærður fyrir morðið á Georg Floyd. Í ákæruskjalinu kemur fram að samkvæmt krufningarskýrslu Floyds hafi hann í raun ekki kafnað. Í bráðabirgðakrufningarskýrslunni segir að möguleg dánarorsök geti verið blanda af harðneskjulegri meðferð lögreglunnar, hjartveiki Floyds og hugsanleg vímuefnaneysla. Fjölskylda Floyds hefur nú ráðið eigin réttarmeinafræðing og krefst þess að Floyd verði krufinn að nýju.

Viðbúnaðurinn í Minnesota, og reyndar víðar, er gríðarlegur. Í fyrsta sinn í sögu ríkisins stendur bandaríska þjóðvarðliðið vaktina í nótt, enda hafa fjölmenn mótmælin víða farið úr böndunum. 

Ráðamenn hafa biðlað til mótmælenda og segja að skemmdarverk hjálpi ekki til við að heiðra minningu Georg Floyds.

Nánari umfjöllu um málið má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi