Stór stund þegar Birgitta dressaði alla í loðlegghlífar

Mynd: RÚV / RÚV

Stór stund þegar Birgitta dressaði alla í loðlegghlífar

30.05.2020 - 14:54

Höfundar

„Þetta var ekki útpælt, guð minn góður. Ég veit ekki hvar sá stílisti væri í dag,“ segir Birgitta Haukdal um klæðaburð og útlit hennar og annarra hljómsveitarmeðlima Írafárs, sem var ein vinsælasta hljómsveit landsins á gullaldarárum sveitaballabandanna.

Það skinu fáar stjörnur jafn skært um aldamótin 2000 og stjarna Birgittu Haukdal, eða Birgittu í Írafár eins og hún var líka kölluð. Hún þótti hæfileikarík, myndarleg og góð söngkona og var hún mikil fyrirmynd íslenskra stúlkna sem margar vildu vera eins og hún. Vinsældir hennar urðu svo miklar að gerð var umdeild Birgittu-dúkka sem öll börn áttu að vilja eignast, en hún olli talsverðum vonbrigðum og fjaðrafoki þar sem hún þótt ekkert lík söngkonunni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgittu-dúkkan grætti mörg börn í kringum aldamót

Birgitta fór sínar eigin leiðir í tísku og klæðaburði þegar hún kom fram, var gjarnan með fjaðrir, fléttur, stór belti og skrautlega höfuðklúta. En útlit hennar var líka í takt við helstu tískustrauma þess tíma að einhverju leyti. Hún klæddist lágum gallabuxum, bar hvítan augnblýant og hárið var gjarnan röndótt af strípum. Vignir Snær Vigfússon, sem einnig var í bandinu með Birgittu, segir að stundum hafi hann og aðrir hljómveitarmeðlimir haft efasemdir um fataval söngkonunnar en sögðu ekkert. Hún hafði hins vegar oft áhyggjur af því að þeir væru ekki nógu hipp og kúl, hvatti þá til að fá sér strípur og reyndi að fá þá til að tolla betur í tískunni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta átti mikið safn af fjöðrum og klútum

Eitt sinn tókst henni að sannfæra strákana um að klæðast loðnum legghlífum á tónleikum. „Það var stór stund þegar ég dressaði allt bandið í loðlegghlífar,“ rifjar hún upp en segir hins vegar að almennt hafi útlitið á henni og bandinu ekki verið útpælt. „Guð minn góður, ef þetta hefði verið útpælt, ég veit ekki hvar sá stílisti væri í dag,“ segir hún. „Ekki með vinnu,“ samsinnir Vignir. „Maður var bara að hafa gaman. Mig langaði ekki að vera eins og allir bjuggust við að maður ætti að vera. Það var alls konar skrýtið í gangi.“

Aldamótaböndin er þáttur um hljómsveitirnar sem tröllriðu tónlistarsenunni um aldamótin. Guðrún Sóley Gestsdóttir ræðir við helstu liðsmenn hljómsveitanna og rifjar upp sveitaböllin, tískuna og tíðarandann svo eitthvað sé nefnt.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fordómar grættu liðsmenn sveitaballasveitanna

Lifði á kornflexi og frosnum frönskum