Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Söguleg geimferð Dragon hafin

30.05.2020 - 20:06
Mynd: EPA-EFE / EPA
Geimflaugin Dragon með geimförunum Doug Hurley og Bob Behnken innanborðs er lögð af stað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eftir vel heppnað geimskot frá geimvísindastöðinni NASA í Flórída um klukkan hálf átta í kvöld. Þetta er fyrsta mannaða geimflaugin á vegum einkafyrirtækis sem skotið er á loft en geimflaugin er í eigu SpaceX, fyrirtækis milljarðamæringsins Elon Musk, og jafnframt fyrsta mannaða geimferð Bandaríkjamanna í næstum áratug. Áætlað er að geimferðin taki um 19 klukkustundir.

Veðrið í Flórída hefur sett strik í reikninginn hjá NASA undanfarið. Upphaflega stóð til að skjóta Dragon upp á miðvikudag, en eldingar og þrumur þóttu ekki vænlegt veðurfar til árangurs.

SpaceX hefur nokkrum sinnum sent ómönnuð geimför til geimstöðvarinnar sem er á braut umhverfis jörðu. 

Forsvarsmenn NASA leggja mikla áherslu á að auka áhuga almennings á geimferðum á ný og því var hægt að fylgjast með viðburðinum í beinni útsendingu.  Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu NASA.