Rjúpum hefur fækkað á Norðurlandi en fjölgað í öðrum landshlutum. Þetta leiðir rjúpnatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2020 í ljós. Í fyrra fækkaði rjúpum víðast hvar, nema í lágsveitum á Norðausturlandi.
Rjúpur voru taldar á 32 svæðum í öllum landshlutum. Alls sáust 1315 karrar, sem er um 1-2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu. Á Norðurlandi er rjúpnastofninn á niðurleið eftir hámark 2018 - á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum virðist stofninn vera að ná hámarki og á Austurlandi er rjúpum að fjölga eftir nokkur mögur ár. Á Suðurlandi fjölgar rjúpum einnig eftir mikið fall 2017-2019.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að reglubundnar sveiflur í stofnstærð íslensku rjúpunnar hafi einkennt íslenska rjúpnastofninn. Sveiflurnar hafi breyst í kjölfar friðunar 2003 og 2004 og samdráttar í veiði frá 2005. Nú sé styttra á milli hámarka en áður, sem er sérstaklega áberandi á Norðausturlandi.
Miðað við ástand stofnins frá síðustu aldamótum er rjúpnafjöldinn í ár undir meðallagi á Norðausturlandi og Austurlandi en annars staðar um og yfir meðallagi.