Heimamenn kaupa Norðanfisk á Akranesi

30.05.2020 - 16:04
Smábátar við bryggju í höfninni á Akranesi.
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sigurjón Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Norðanfisks fer fyrir hópi fjárfesta frá Akranesi sem nú hefur undirritað kaupsamning við Brim um kaup á öllu hlutafé fyrirtækisins. Hann gerir ráð fyrir að gengið verði frá kaupunum fyrir lok júní.

„Hópurinn samanstendur af góðu fólki. Stærstu hluthafanna þarna eru hjónin Inga Ósk Jónsdóttir og Gísli Runólfsson, þau koma þarna inn með stærsta hlutinn auk þeirra eru þarna nokkrir aðilar sem þekkja vel til rekstrar Norðanfisks og Sögu og koma sterkir inn,“ segir Sigurjón. 

Þrjátíu starfa hjá Norðanfiski á Akranesi sem sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á sjávarfangi til veitinga-og stóreldhúsa innanlands og sölu á neytendapakkningum til verslana um land allt.  

Árið í fyrra besta rekstrarárið í 20 ára sögu

Fiskvinnsla á Akranesi hefur átt við nokkra erfiðleika að stríða undanfarin misseri. Sigurjón segir þó síðasta ár hafi verið það besta í 20 ára sögu fyrirtækisins. Kórónuveirufaraldurinn hafi sett strik í reikninginn enda minni umsvif verið á veitingahúsum landsins að undanförnu. „En þetta horfir allt til betri vegar og maður sér að það er komið mikið líf í þetta aftur,“ segir Sigurjón. 

Sigurjón segir að 26 af 30 starfsmönnum fyrirtækisins hafi farið á hlutabótaleið stjórnvalda í apríl. 

„Þannig að maður vonast til að sjá meira í gang á veitingamarkaði fljótlega þannig að við getum farið á fullan snúning aftur.“

Áhersla áfram lögð á innanlandsmarkað

Sigurjón segir fyrirtækið hafa verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár og sér fram á frekari vöxt. Áfram verði áhersla lögð á innanlandsmarkað. Einhverjar áherslubreytingar verði með nýjum eigendahóp. 

„Það liggur fyrir auðvitað að þetta eru heimamenn á Akranesi sem eru að kaupa og ætla sér að styrkja félagið heima þannig að það eru engar breytinga sem slíkar hvað varðar starfsstöðina en klárlega munum við skoða öll tækifæri til stækkunar og eflingar á starfseminni.“

Kaupsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar. „Já, það passar og það fer bara í gang strax eftir helgi. Það mun taka nokkrar vikur og stefnt að því að klára afhendingu á félaginu fyrir næstu mánaðamót.“

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi