Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur selt yfir milljón bækur: „Þetta er alveg galið“

Mynd: Bjartur / Veröld

Hefur selt yfir milljón bækur: „Þetta er alveg galið“

30.05.2020 - 09:33

Höfundar

Bækur Ragnars Jónassonar hafa selst vel í Bretlandi, Ástralíu, Frakklandi og Þýskalandi og nýverið fékk bókin Mistur afar jákvæða umsögn í Washington Post. Þá stendur til að gera sjónvarpsþáttaröð upp úr bókum Ragnars um lögreglukonuna Huldu.

„Ég byrjaði að skrifa 5-6 ára og á ennþá fyrstu bækurnar mínar, það voru svona ævintýrabækur,“ segir Ragnar í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. „Ég byrjaði að skrifa glæpasögur svona 12 ára, þær voru handskrifaðar í innbundnar stílabækur,“ segir Ragnar og bætir við að þær hafi gerst í Bretlandi og verið undir talsverðum áhrifum frá Agöthu Christie. Í umsögn Washington Post um Mistur segir að Ragnar lýsi með nákvæmni Harolds Pinters tveimur flóknum hjónaböndum sem enda með voveiflegum atburðum og þremur líkum. Ragnar segir að góð umsögn í svona virtum fjölmiðli geti hjálpað honum að brjótast inn á Bandaríkjamarkað. „Það er barist um þessa sentímetra í blöðunum, og það er merki um baráttuna sem bókin á í, í samkeppni við streymisveitur, tölvuleiki og fleira.“

Bankamaðurinn, rithöfundurinn og fjölskyldumaðurinn

Bækur Ragnars hafa fram að þessu notið mestra vinsælda í Frakklandi. „Ég fer þangað minnst tvisvar á ári, og það er frábært hvað þeir kaupa mikið af og tala mikið um bækur.“ Fyrstu fimm bækur Ragnars gerðust allar á Siglufirði en í síðustu þremur bókum höfum við fylgt eftir lögreglukonunni Huldu sem yngist með hverri bók. Þrátt fyrir þessa miklu velgengni hefur Ragnar enn sem komið er ekki gert skriftirnar að aðalstarfi, heldur starfar á fjárfestingasviði Arion Banka, og þar áður var hann yfirlögfræðingur fjárfestingasjóðsins GAMMA. „Það er bara skemmtilegt að mæta í vinnuna og hitta gott fólk. Það gefur mér mjög mikið.“

Eftir að Ragnar kemur heim úr vinnu ver hann tímanum með fjölskyldunni og byrjar svo kannski ekki að skrifa fyrr en 11 á kvöldin svo það er ekki mikill tími aflögu fyrir önnur áhugamál. „Auðvitað verður maður að fórna einhverju. En mér líður illa ef ég er ekki að skrifa.“ Ragnar segir erfitt að lifa af bóksölu á Íslandi sem fari minnkandi með hverju árinu, þó hann viti ekki hvað veldur. „En þessi hefð að gefa bækur í jólagjöf, fólk erlendis verður uppnumið þegar ég segi frá henni. Það er svolítið að halda markaðnum uppi.“ En hvað hefur hann selt margar bækur? „Ein komma eitthvað, ein komma tvær ca., milljónir. Þetta er alveg galið,“ segir Ragnar.

Nú stendur til að gera sjónvarpsþætti upp út bókunum um Huldu. „Það er statt einhvers staðar í Bandaríkjunum,“ segir Ragnar. „Það er gæi sem heitir Greg Silverman sem stýrði Warner Brothers fyrir nokkrum árum en stofnaði svo sitt eigið framleiðslufyrirtæki. Það er um ár síðan þeir keyptu réttindin og þeir eru á fullu að reyna að koma þessu í sjónvarpið. Það er hugur í þeim.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Dimma Ragnars meðal bóka ársins í Svíþjóð

Sjónvarp

Greg Silverman kaupir réttinn á bók Ragnars

Bókmenntir

Yrsa og Ragnar stofna ný glæpasagnaverðlaun

Bókmenntir

Langbesta bók Ragnars Jónassonar