Gæta þurfi jafnvægis til að vinna gegn meiðslahættu

Mynd: RÚV / RÚV

Gæta þurfi jafnvægis til að vinna gegn meiðslahættu

30.05.2020 - 19:00
Eftir að þýski boltinn fór aftur að rúlla fyrir tveimur vikum jukust meiðsli leikmanna marktækt og er það rakið til skamms undirbúnings liðanna. Doktor Árni Árnason, dósent við HÍ, segir tengslin milli lengdar undirbúnings og meiðslahættu þekkt.

 

Árni segir undirbúningstímabilið hér heima ekki hafa verið stutt en það var rofið vegna faraldursins. Það hafi verið mikilvægt fyrir leikmenn að halda sér vel við í einstaklingsæfingum og svo hafi tímabilið þegar aðeins mátti æfa í litlum hópum hafa verið mikilvægt. Nú þegar lið mega æfa saman skipti miklu máli að leikmenn komist í leikæfingu sem náist aðeins með æfingum sem líkja eftir leikjum.

„Við höfum núna smá tíma til stefnu en það er spurning hvort hann dugi. Þetta er spurning annars vegar um þennan þátt og hins vegar um grunnþjálfunina. Hvernig mönnum hefur tekist að viðhalda grunnþjálfuninni á þessu tímabili. Ef það hefur tekist vel og það tekst vel að vinna með leiklíkar æfingar nú fram að móti þá þarf það ekkert endilega að þýða að það verði aukin meiðslatíðni í byrjun móts. En ef það hefur ekki tekist þá megum við búast við að verði meiðslatoppur í byrjun móts og jafnvel líka annar í seinni hluta móts eða lok móts þegar komin er þreyta í leikmenn og leikir spilaðir þétt,“ segir Árni.

Árni segir engar skyndilausnir vera til til að flýta því að leikmenn komist í leikfært stand. Vel þurfi að huga að æfingaálagi og hvíld.

„Það þarf að vera rétt blanda. Ekki viljum við að leikmenn komi of þreyttir inn í mótið því þá er hætta á meiðslum. Það er líka mikilvægt að það sé gott samstarf milli þjálfaranna og sjúkraþjálfaranna, bæði hvað varðar álag og eins hvað varðar forvarnir meiðsla. Svo eru þessi litlu meiðsli sem geta verið að dúkka upp, þau eru ekki endilega þess eðlis að leikmenn þurfi að hætta keppni eða æfingu á meðan á þeim stendur en það eru alltaf smá óþægindi. Það er mikilvægt að vinna með þessi meiðsli líka núna fram að móti til þess að þau dúkki ekki upp sem stærri eða alvarlegri meiðsli þegar mótið er komið í gang.“ segir Árni.

Þannig að gæði æfinga er frekar lausn en magn þeirra?

„Já. Úr því sem komið er held ég að það sé málið. Að vinna með gæði frekar en magn.“ segir Árni.

Sjá má ummæli Árna í spilaranum að ofan.