Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frumsýnir Húsmæðraskólann í Toronto

Mynd: stefania / stefania

Frumsýnir Húsmæðraskólann í Toronto

30.05.2020 - 13:26

Höfundar

Stefanía Thors hafði ákveðnar hugmyndir um Húsmæðraskólann þegar hún ákvað að gera þar heimildamynd. Hugmyndirnar breyttust um leið og hún steig inn í skólann og á Covid-tímum dreymir hana um að kunna að gera sviðasultu og verða húsmóðir.

„Ég skil alveg Rauðsokkurnar, að hafa fyrirlitið þetta nám, en samt er þetta svo fallegt nám. Því það heldur við hefðum sem við erum svo mikið að tapa. Ég kann til dæmis hvorki að prjóna vettlinga né ennisband,“ segir Stefanía Thors, klippari og leikstjóri sem frumsýndi sína fyrstu heimildamynd á HotDocs í Toronto í gær. 

Húsmæðraskólinn, eða Hússtjórnarskólinn eins og hann heitir í dag, mætti töluverðri vanvirðingu á tímum þegar konur börðust fyrir því að komast út á vinnumarkaðinn, þar sem hann var í upphafi hugsaður sem staður til að læra að vinna inni á heimilinu. En sú vanvirðing hefur horfið aftur, nú á tímum aukinnar meðvitundar um sjálfbærni, nýtni og sóun. Í dag er skólinn hugsaður fyrir bæði kynin og hvern þann sem langar til að öðlast meiri færni í hagnýtum hliðum er snúa að rekstri heimilisins. Stefanía bendir á að nú á tímum Covid hafi það orðið nokkuð ljóst að mörg okkar viljum snúa aftur í einfaldara líf, myndir af súrdeigsbrauðum á Instagram séu gott dæmi um það. „Sjálf væri ég bara alveg til í að vera húsmóðir eftir þetta Covid. Bara halda fallegt heimili og elda góðan mat. Þetta er í fyrsta skipt sem við erum ekki með neina matarsóun, því það var allt svo undirbúið.“  

Húsmæðraskólinn er fyrsta heimildarmynd Stefaníu og hennar fyrsta leikstjórnarverk en hún hefur unnið sem klippari til fjölda ára. Hún segir það góða tilfinningu að frumsýna sitt eigið verk en óneitanlega sé skrítið að hafa engan stað til að sýna myndina á Íslandi. 

„Þetta er bara litla barnið, og litla barnið langar voða mikið að fara í Bíó Paradís og sýna sig. Í dag er Norður-Amerísk frumsýning og svo er aðalatriðið að koma henni á fleiri hátíðir og þegar búið er að frumsýna í Evrópu þá getum við sýnt hana í bíó hér heima. Planið var að sýna hana í Bíó Paradís í október en það er óvissa því það er ekkert víst að það muni opna aftur. Sem er ömurlegt því þetta er eina bíóið sem er í boði fyrir okkur, kvikmyndagerðamenn. Ég hafði samband við Senu um hvort við mættum sýna hjá þeim og þeir afþökkuðu myndina pent. Vildu ekki fórna heilum sal í þessa mynd.“ 

Rætt var við Stefaníu Thors í Samfélaginu á Rás1 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Við leyfum gömlu fólki ekki að vera kynverur“

Menningarefni

„Mamma dró fyrir þegar pabbi vaskaði upp“