Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin slíta á tengsl við WHO

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að slíta öll tengsl við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina vegna þess hvernig hún hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum. Fjöldi dauðsfalla af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og Brasilíu hefur rokið upp að nýju.

Ákvörðun forsetans leiðir til að stofnunin verður af hundruðum milljóna dollara þegar þörfin er hvað mest enda á faraldurinn enn eftir að ná hámarki víða um heim.

Alls hafa um sex milljónir smitast og ríflega 360 þúsund látist og bóluefni virðist ekki væntanlegt á næstunni.

Mörg ríki í Rómönsku Ameríku búa sig nú undir erfiðar vikur. Það á einkum við um Brasilíu þar sem 1124 létust í gær sem er metfjöldi á einum degi. Fátækt fólk í álfunni er talið eiga eftir að verða illa fyrir barðinu á sjúkdómnum.

Trump dró úr framlögum til stofnunarinnar í síðasta mánuði og sakaði hana um að hafa ekki gert nóg til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar auk þess sem Kína hefði verið sýnd of mikil linkind þótt faraldurinn ætti uppruna sinn þar.

Bandaríkjaforseti hyggst sjá til þess að aðrar alþjóðastofnanir sem hann telur frekar eiga það skilið muni njóta framlags Bandaríkjanna til heilbrigðismála.