Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Umskurður kvenna í Kenya

29.05.2020 - 17:30
Erlent · Afríka · Erlent · Fréttaskýring · Kenya
Mynd: EPA / EPA
Limlesting á kynfærum kvenna hefur verið bönnuð árum saman í Kenya en þessari blóðugu hefð er enn viðhaldið í dreifðari byggðum landsins. Samtök sem berjast gegn umskurði kvenna boða breyttar hefðir við vígsluathafnir stúlkna og baráttan skilar árangri. Tvö hundruð milljónir kvenna í heiminum hafa verið limlestar á kynfærum og á ári hverju bætast við þrjár milljónir ungra stúlkna.

Kvöldið fyrir umskurðinn setur móðirin málmskál með vatni á þak kofans. Í dagrenningu er stúlkan vakin, lögð nakin á nautshúð og þvegin með ísköldu vatninu svo líkaminn verði dofinn eða tilfinningalaus. Tvær konur halda fótleggjum stúlkunnar og sú þriðja efri hluta líkamans. Sú fjórða notar rakvélablað til að fjarlægja snípinn og í sumum tilvikum ytri og innri skapabarma. Stundum er hreinlega lokað fyrir leggöngin. Umskurðurinn rænir stúlkurnar æskunni. Oft geta þær ekki eignast börn. Þvaglát og kynlíf verður iðulega sársaukafullt. Í sumum tilfellum deyr stúlkan við limlestinguna.

Byggir á ævaforni hefð

Stephen Likama höfðingi hjá Massai-fólki segir að þessi hefð sé ævaforn. Sagan segi að Massai-menn hafi farið í stríðsleiðangur en við heimkomu hafi konur þeirra verið smánaðar, sumar óléttar og aðrar giftar. Þetta eigi aldrei að gerast aftur og því séu konur umskornar áður en haldið er í leiðangur.

Limlesting á kynfærum kvenna tíðkast víða

Umskurður hefur verið bannaður í Kenya frá 2011 og refsingin er afar hörð, 2.000 dollara sekt og að lágmarki þriggja ára fangelsi. Limlesting á kynfærum kvenna tíðkast þó enn víða, sérstaklega í einangruðum þorpum á landsbyggðinni, fjarri hefðbundnum yfirvöldum. Þorpshöfðinginn á að framfylgja banninu en þar er hann á milli tveggja elda, laga og hefða samfélagsins. 

Tekur tíma að breyta hefðum og venjum

Nailepu Pusaren sá lengi um umskurð í sínu þorpi. Hún segir að stúlkunum hafi verið misþyrmt og þær hafi þjáðst mikið. Hún hafi fengið borgað fyrir umskurðinn en hafi ekki getað limlest eigin börn. Hún eigi fjórar dætur og sú yngsta er sú eina sem slapp undan því að vera limlest á kynfærum. Héraðshöfðinginn Stephen Likama segir að umskurður sé ævaforn hefð sem verði ekki upprætt á einum degi. Það taki sinn tíma.

Umskurður útbreiddur meðal Massai-fólksins

Meðal Massai-fólksins í suðurhluta Kenya eru sjötíu og átta prósent kvenna umskornar, samkæmt nýjustu opinberum tölum frá árinu 2014. Í öllu landinu er hlutfallið 21 prósent. Bannið hafði gilt í þrjú ár áður en könnunin var gerð. Fimmta hver stúlka undir tvítugt á barn, þær hætta í skóla og festast í fátæktargildru.  

Falleg vígsluathöfn í stað grimmdarverks

Abigail Nosim Tepela er nítján ára. Hún segir að hefðir og jafnrétti geti vel farið saman. Helgisiðir og jöfn tækifæri þurfi ekki að vera andstæður. Hún segist vera stolt af því að tilheyra Massai fólkinu en limlesting á kynfærum kvenna sé ómannúðlegt grimmdarverk. Hún er ein hinna heppnu sem slapp undan umskurði. Fjölskylda hennar rauf hefðina og tók upp nýja hefð. Vígsluathöfnin er falleg, það er mikið dansað og stúlkurnar eru teknar í fullorðinna kvenna tölu, þótt ekki séu þær skornar. Ekki gera ekki neitt, segja baráttukonur fyrir breyttum venjum. Í stað hins forna siðar, þarf að koma eitthvað nýtt sem festir rætur.

Þorpsöldungar látnir horfa á umskurð

Það er ekki einfalt að sannfæra þorpsbúa um að kasta fornum siðum. Fyrst þurfti að sannfæra eldri menn þorpsins og það var gert með því að sýna upptökur af umskurði og ræða málið í þaula. Nú fara börnin á námskeið og sum þeirra þurfa að fara um langan veg. En þar læra börnin um líkamann, kynlíf og barnsfæðingar, nokkuð sem aldrei var rætt áður. 

Lykilatriði að byggja upp traust

Grace Majiakusi er Massai og ein þeirra sem sjá um þessi námskeið og nýju vígsluathafnirnar. Hún segir að það skipti miklu máli að hún sé af Massai-fólkinu, það skapi traust sem ekki sé til staðar þegar utanaðkomandi reyna að breyta hefðum og venjum fólksins. Hún talar tungu fólksins og það skapar traust meðal barnanna, langt umfram það sem væri ef töluð væri enska eða swahili. 

Dropinn holar steininn

Námskeiðið varir í þrjá daga en hápunkturinn eða vígsluathöfnin sjálf er á fjórða degi. Stúlkurnar undirbúa sig allan daginn, þær dansa með mæðrum sínum og ömmum, fá skartgripi og hvíta hárborða. Um kvöldið sýna þær fegurð sína. Sjötíu og átta stúlkur tóku þátt í athöfnum Amref-samtakanna í fyrra og samtals hafa þær verið sextán þúsund. Í Kenya er stefnt að því að útrýma umskurði árið 2022 sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna miða við 2030. Tímarnir breytast þótt breytingarnar gangi hægt.