Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Trump tekur Kína til bæna - slítur á samskiptin við WHO

29.05.2020 - 19:13
epa08450848 US President Donald J. Trump makes remarks before signing an executive order on social media that will punish Facebook, Google and Twitter for the way they police content online,  in the Oval Office, White House, Washington, DC, USA, 28 May 2020.  EPA-EFE/DOUG MILLS/ POOL
 Mynd: EPA-EFE - THE NEW YORK TIMES POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór hörðum orðum um Kína og kínversk stjórnvöld á blaðamannafundi nú síðdegis. Kínverskir háskólanemar sem teljast ógn við þjóðaröryggi fá ekki að koma til landsins og sérstökum viðskiptasamningi við Hong Kong verður slitið. Hann sagði Kínverja ábyrga fyrir kórónuveirufaraldrinum og tilkynnti að ríkisstjórn hans hefði slitið á öll tengsl við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina þar sem Kínverjar hefðu á henni tangarhald.

Trump svaraði engum spurningum fjölmiðlamanna og nefndi hvorki mótmælin í Minneapolis né morðið á blökkumanninum George Floyd.  Forsetinn hefur verið sakaður um að hvetja til ofbeldisverka með færslu á Twitter um mótmælin.

Trump mætti bæði með Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sér til halds og trausts á blaðamannafundinn en hvorugur lagði neitt til málanna.  „Ég er hér til að tala um Kína,“ sagði Trump þegar hann hóf einræðu sína.

Þingmenn demókrata voru snöggir að gagnrýna forsetann fyrir að minnast ekki á ástandið í Minneapolis og öðrum borgum.  Einn þeirra sagði Trump hafa brugðist sem leiðtogi.

Hann virtist gefa í skyn að útbreiðsla kórónuveirunnar til Vesturlanda væri engin tilviljun. Máli sínu til stuðnings sagði hann að veiran hefði ekki breiðst út um Kína, ekki ratað til Peking en íbúum Wuhan, þar sem veiran greindist fyrst, hefði verið leyft að ferðast til annarra landa. 

Hann talaði ekki um kórónuveiruna heldur „Wuhan-veiruna,“ sem bendir til þess að hann ætli sér ekki að hvika frá þeirri skoðun sinni að Kínverjar séu ábyrgir fyrir faraldrinum. Þeir hefðu gerst sekir um afglöp með því að leyfa henni að breiðast út um heimsbyggðina með mannfalli og hörmungum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV