Þung umferð á höfuðborgarsvæðinu

29.05.2020 - 18:37
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚ
Umferð hefur verið þung síðdegis á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega á Vesturlandsvegi. Gera má ráð fyrir að straumurinn liggi að einhverju leyti norður í land þar sem spáð er allt að 20 stiga hita núna um Hvítasunnuhelgina, sem er fyrsta stóra ferðahelgi ársins.

Umferð miðaði hægt á sjötta tímanum í dag á Miklubraut í Reykjavík og upp í Mosfellsbæ. Þeir sem fréttastofa hefur talað við síðdegis eru sammála um að umferðarhraðinn hafi verið á milli 20 og 30 kílómetrar á klukkustund þegar mest var og bíll við bíl nánast frá Höfðabakkabrúnni og upp í Mosfellsbæ. Margir hafi virst vera á leiðinni út úr bænum og einn og einn ferðavagn aftan í bílum á leið norður. 

Par á leið norður sem fréttastofa náði tali af sagðist hafa verið einn og hálfan klukkutíma frá gatnamótum Sæbrautar og Dalbrautar að Þingvallaafleggjaranum. Bílar hafi ekki farið áfram nema örstuttan spotta í einu áður en nema þurfti staðar á ný. Ferðalagið hafi hafist klukkan 16:30 og klukkan 18 hafi þau farið fram hjá Þingvallaafleggjaranum. Hugsanlega hafi óhapp í einu hringtorgi Mosfellsbæjar tafið fyrir umferð. Þar hafi bíll frá árekstur.is verið að fjarlægja bíl á meðan parið átti leið þar hjá. 

Sigrún A. Þorsteinsdóttir, forvarnarfulltrúi hjá VÍS, hvetur fólk til að aka ekki húsbílum eða draga tengivagna í miklum vindi. Rætt er við hana í sjónvarpsfréttum í kvöld. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi