„Þetta áfall breytti mér“

Mynd: Brynjar Snær / Aðsend

„Þetta áfall breytti mér“

29.05.2020 - 10:15

Höfundar

Arndís Hrönn Egilsdóttir var aðeins fimmtán ára þegar litli bróðir hennar, sem var tíu árum yngri en hún, lést eftir skammvinn veikindi. Hún lifir með sorginni en segir áföll lífsins hafa breytt sér, jafnvel hafa gert sig að betri leikkonu. Síðan nýjasta mynd hennar, Héraðið, var frumsýnd í Bretlandi hafa gagnrýnendur keppst um að lofa leikkonuna.

Kvikmyndin Héraðið eftir Grím Hákonarson hefur fengið rífandi viðtökur í Bretlandi síðan hún var frumsýnd þar í landi. Hún fékk meðal annars fjórar stjörnur í nýlegum dómi í The Guardian og var aðalleikkonan ausin gífurlegu lofi. Gagnrýnandinn Mark Kermode segir að Arndís beri algjörlega af og líkir svipbrigðum hennar og leikstíl við bandaríska stórleikarann Buster Keaton. Um samlíkinguna við segir Arndís hógvær: „Það var eitthvað við svipbrigðin sem minnti á hann. Hann sá einhver líkindi sem mér hefði aldrei dottið í hug.“ Samkvæmt gagnrýnandanum Peter Bradshaw, í fjögurra stjörnu dómi sínum fyrir sama miðil, er frammistaða Arndísar mögnuð í myndinni og segir hann að hún haldi henni algerlega uppi. Peter segir líka að eftir því sem líður á myndina og eftir áföllin sem dynja yfir Ingu, sem Arndís leikur, hellist æskuljóminn yfir karakterinn sem yngist eftir því sem líður á myndina. „Það ætti að vera öfugt en baráttan og fjárhagsáhyggjurnar gefa henni kraft. Hún verður yngri og yngri og að einhverju náttúruafli,“ samsinnir leikkonan sem viðurkennir að hafa á ferlinum aldrei leyft sér að þora að láta sig dreyma um að mynd, með henni sjálfri í aðalhlutverki, fengi slíkar viðtökur.

„Þeim finnst ég bara stórkostleg“

„Allt í einu var maðurinn minn að lesa Guardian og var bara: Arndís viltu lesa þetta?“ rifjar hún upp. „Það var eins og æðakerfið tæki hopp. Það eru mörg blöð í Bretlandi, og það er alveg búin að vera umfjöllun, en Guardian er svona Guð að tala.“ Hún segir bresku pressuna sérlega áhrifamikla og það er strax orðið ljóst að gagnrýnin muni opna ýmsar dyr fyrir hana. „Þetta er það sem við lesum til að vita hvað er í gangi í menningu og listum,“ segir hún. „Þetta er svo mikið og stórt.“

Og þó hún kveðist ekki viss um að vera rétta manneskjan til að svara því hvað gagnrýnendur hafa haft að segja um sig svara hún hreinskilnislega og sannleikanum samkvæmt: „Þeim finnst ég bara stórkostleg. Og trúverðug. Þeir trúa á mig sem bónda sem er stærsti sigurinn fyrir mig. Ég er manneskja með ekkert verkvit.“

Stór áfangi að takast að laga hillu í uppþvottavélinni

Arndís fór í læri hjá Heiðu fjalladalabónda þar sem hún lærði helstu tökin í búskapnum fyrir hlutverkið. Hún segir reynsluna dýrmæta og segist hún hafa öðlast aukið sjálfstraust til að ráðast í verkefni sem henni óx áður í augum. „Mér tókst til dæmis að laga hillu í uppþvottavélinni,“ segir hún, „en það verða aðrir að dæma um hvort þetta hafi lagast mikið.“ Sem fyrr segir hefur kvikmyndin fengið ótrúlegar viðtökur í Bretlandi og segir leikkonan ljóst að Bretar tengi sérstaklega við söguna. „Ég held það sé barátta lítilmagnans gagnvart kerfinu. Það snertir einhvern þráð hjá þeim.“

Komin með ógeð af sjónum

Líkt og hjá flestum kollegum Arndísar í leikarastéttinni hægðist verulega um í vinnu í heimsfaraldri. Hún varði miklum tíma heima við, reyndi líka að fara reglulega í göngutúra um hverfið á Seltjarnarnesinu en þeir voru orðnir svo margir að hún var komin með óþol fyrir öllu því sem fyrir augu bar. „Á tímabili var ég alveg: Ég hata sjóinn. Djöfull er ég komin með mikið ógeð af þessum helvítis sjó,“ segir hún. Og þó ástandið hafi síst verið skárra í Frakklandi síðustu vikur fór hún að sakna Parísar, þar sem hún var búsett um árabil. „Ég var unglingur þegar ég kom fyrst þangað og það eina sem ég vissi í lífinu var að ég vildi búa þar. Ég finn að ef ég kem til Parísar í 30 stiga hita þá næ ég í mitt element. Ég verð ég, eitthvað inni í mér, það verður blóðflæði.“

Var afar náin litla bróður sínum

Arndís er elst í systkinahópnum en einn af fjórum yngri bræðrum hennar, Egill Högni, lést aðeins fimm ára gamall eftir skammvinn veikindi. Þá var Arndís fimmtán ára. „Hann barðist fyrir lífi sínu í dálítinn tíma en svo dó hann. Þetta voru eins og hamfarir sem koma yfir fjölskyldu, þetta breytir öllu,“ segir Arndís. Hún segir þau systkinin hafa verið afar náin og hún passaði mikið upp á bróður sinn. „Ég passaði hann endalaust og hann var alltaf aftan í mér.“

„Ég sakna hans enn“

Það var erfitt að tala um fráfall litla bróður á sínum tíma samkvæmt Arndísi. „Þá var allt lokað og ég man að vinkonur mínar vissu ekki hvernig þær ættu að tala við mig. Svo braust þetta út á diskótekinu þegar krakkar voru búnir að fá sér brennivín. Fólk kunni ekki að tala um þetta eins og núna. Það var bara ekki talað um dauðann.“ segir hún.

Ári eftir fráfall Egils Högna eignuðust foreldrar Arndísar tvíburana Högna Egilsson tónlistarmann, sem skírður er í höfuðið á bróður sínum heitnum, og Andra. Fimm árum síðar skildu foreldrarnir og Arndís segir að sorgin sem fylgdi í kjölfarið á missinum hafi haft mikið að segja og haft áhrif á hjónabandið og fjölskylduna alla. „Þetta áfall breytti mér og ég sakna hans enn. Ég fann að þetta var mikið áfall sem kom aftur þegar ég varð ólétt. Maður geymir það og svo hugsaði ég mikið um þetta þá. Ég varð hrædd við að verða móðir því mamma hafði gengið í gegnum að missa barn,“ segir hún. „Sorgin kemur alltaf til manns, aftan að manni þegar maður veit ekki af henni. Eins og hjá mömmu og pabba, það er ekki hægt að lýsa því hvernig það er fyrir fólk að missa barnið sitt. Það er ólýsanleg sorg.“

„Hann spilar á píanó á morgnana og þá er allt gott“

Og sorgin hafði þau áhrif á Arndísi að henni fannst hún ekki tilbúin að eignast börn fyrr en hún eignaðist einkadóttur sína fjörutíu ára gömul. Hún viðurkennir að hún hafi að einhverju leyti líka verið að bíða eftir Eiríki manninum sínum með að fjölga mannkyninu. „Það var mikið gæfuspor að hitta hann í heita pottinum,“ segir hún. „Við vissum alveg hvort af öðru og eigum sameiginlegan vinahóp, vorum bæði í MH en hann tveimur árum eldri en ég og við þekktumst ekkert.“ Svo var það ekki fyrr en í örlagaríkri sundferð þeirra beggja sem þau áttuðu sig á því, eftir spjall í heita pottinum, að þau vildu ekki án hvors annars vera. „Hann er mikið haldreipi. Mjög hæfileikaríkur og skemmtilegur. Hann spilar fyrir mig á píanó á morgnana og þá er allt gott.“

Það er ýmislegt fram undan hjá Arndísi þegar leikhúsin opna á ný og framleiðsla fyrir hvíta tjaldið fer aftur á fullt en hún má ekki gefa of mikið upp. „Ég var í Þjóðleikhúsinu að sýna sýningu þegar samkomubann skall á. Allt breyttist og enginn veit neitt, en ég hef trú á að það verði aftur leikhús og það er aðeins byrjað. Það eru spennandi þreifingar í gangi,“ segir hún.

Rætt var við Arndísi Hrönn Egilsdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þetta eru myndir sem ég sýni engum“

Sjónvarp

Veikindi litlu systur settu verkefnið í nýtt samhengi