Telur afturvirkar launahækkanir grunsamlegar

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri
 Mynd: RÚV
Hundrað og sextíu launagreiðendur hafa óskað eftir því við Ríkisskattstjóra að fá að hækka áður tilkynnt laun í janúar og febrúar. Ríkisendurskoðun telur að leiða megi líkum að því að meirihluti þessara breytinga byggist á hæpnum grunni og að tilgangurinn með þeim sé að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði á meðan fólk nýtir hlutabótaúrræðið. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina sem gefin var út í gær.

Heildarhækkun á launum í janúar og febrúar, samkvæmt beiðnum til Ríkisskattstjóra, er 114 milljónir króna og segir í skýrslunni að hækkanir á tímabilinu séu bæði hærri og fleiri en í venjulegu árferði. Ríkisendurskoðun telur að það þurfi að kanna nánar hvaða ástæður liggi að baki þessum hækkunum. 

Meirihlutinn fólk í eigin rekstri

Fólk í eigin atvinnurekstri er í meirihluta þeirra sem hafa óskað eftir afturvirkri hækkun. „Leiða má líkum að því að meirihluti umræddra breytinga byggi á hæpnum grunni og tilgangurinn sé að ná hærri greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að svo miklar breytingar veki upp spurningar um ástæður umræddra breytinga og að kanna þurfi réttmæti þeirra,“ segir í skýrslunni. 

Bætur reiknaðar út frá launum síðustu þrjá mánuði

Fyrirtæki gátu nýtt hlutabótaleiðina frá 20. mars eftir að ljóst varð að mörg þeirra þyrftu að segja upp starfsfólki. Þá gátu sjálfstæðir atvinnurekendur sótt um bætur ef hjá þeim varð verulegur samdráttur. Í skýrslunni gagnrýndi Ríkisendurskoðandi að það hafi ekki verið virkt eftirlit með því hverjir nýti úrræðið frá upphafi. Stefnt hefur verið að því að taka eftirlitið upp í haust. 

Samkvæmt lögum um hlutabætur á að reikna þær út frá heildarlaunum síðustu þrjá mánuði áður en launamaður missti starf sitt að hluta. 

 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi