Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telur að hyggja þurfi að slökkvistarfi úr lofti

29.05.2020 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, gerði gróðurelda að umtalsefni undir fundarliðnum störf þingsins á Alþingi í morgun. Gróðureldum geti fjölgað hér á landi vegna stækkandi skóglendis og aukinnar uppgræðslu, loftslagsbreytinga og breytinga á veðurfari. Frekari þurrkar séu mögulegir og fleiri eldingaveður.

Aukin eldhætta kalli á bættar varnir en oft geti verið langt að fara fyrir slökkvilið og erfiðar aðstæður. Ari Trausti telur ástæðu til að endurskoða almannavarnafyrirkomulag og nýjar viðbragðsáætlanir vegna gróðurelda. Mikið sé um mannvirki í kjarrlendi og skógum landsins, segir Ari Trausti, og vísar sérstaklega til sumarbústaða.

Hann segir að sérstaklega þurfi að hyggja að slökkvistarfi úr lofti sem hafi ekki reynt á mikið hér á landi. Þar gegni þyrlur sérstöku hlutverki en aðeins ein risaskjóla sé til í landinu til að nota við slökkvistarf úr lofti. Ari Trausti telur einboðið að skilgreina hlutverk Landhelgsigæslunnar og einkarekinna þyrlufyrirtækja. Hann segir að töluvert verkefni blasi við og hvetur til þess að á því verði tekið.
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV