Sturla Atlas valinn í hlutverk Rómeós í Þjóðleikhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Þjóðleikhúsið

Sturla Atlas valinn í hlutverk Rómeós í Þjóðleikhúsinu

29.05.2020 - 07:49

Höfundar

Sigurbjartur Sturla Atlason, eða Sturla Atlas eins og hann er eflaust betur þekktur, hefur verið valinn úr hópi 100 umsækjenda í hlutverk Rómeós. Leikrit Williams Shakespeare um Rómeó og Júlíu, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu næsta vor. Ebba Katrín Finnsdóttir verður í hlutverki Júlíu.

Sturla Atlas hefur verið áberandi sem leikari á undanförnum árum og fór með hlutverk í Ófærð 2 og kvikmyndinni Lof mér að falla. „Flestir sem vita af mér halda ekki að ég sé menntaður leikari eða neitt þannig. Halda örugglega bara að ég sé tónlistarmaður sem er gott og blessað. Þannig að þetta verður smá önnur hlið sem verður gaman að stíga inn í,“ sagði Sturla í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Æfingar á Rómeó og Júlíu hefjast snemma á næsta ári en verkið verður frumsýnt í mars 2021. 

Um 100 leikarar á aldrinu 20 til 30 ára sóttust eftir því að fá hlutverk Rómeós. Sturla var spurður hvernig hann hefði upplifað þessa samkeppni. „Það var eiginlega dálítið rosalegt,“ svaraði hann. Yfirleitt sé það þannig að hann þekki aðra leikara sem sækist eftir sama hlutverki og hann. Jafnvel hans bestu vinir. Hann hafi farið þá leið að loka sig af og læra textann sem sé mikill. Hann hafi reynt að vera einbeittur og ekki kannað í kringum sig hverjir aðrir væru að sækjast eftir hlutverkinu. „Síðan mætir maður bara í góðu skapi og reynir að gera sitt besta.“

Mynd: RÚV / RÚV
Rætt var við Sigurbjart Sturla og Ebbu Katrínu í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Ebba Katrín Finnsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum og var í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Þá lék hún nokkur hlutverk á samningi í Borgarleikhúsinu í fyrra og á þessu leikári lék Ebba Katrín aðalhlutverkið, Uglu, í Atómstöðinni og burðarhlutverk í Þitt eigið leikrit II í Þjóðleikhúsinu.  

Sturla Atlas var útnefndur bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2016 og sendi nýverið frá sér nýja plötu, Paranoia.  

Tilkynnt var í febrúar um samninga við Þorleif Örn Arnarsson leikstjóra sem fela í sér að hann leikstýri einni sýningu á ári í Þjóðleikhúsinu á næstu árum. lmur Stefánsdóttir hannar leikmynd verksins og Björn Bergsteinn Guðmundsson er ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni.