Rapp í krafti kvenna

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurdætur

Rapp í krafti kvenna

29.05.2020 - 15:40

Höfundar

Soft Spot er ný plata Reykjavíkurdætra sem kalla sig nú Daughters of Reykjavik á alþjóðavísu. Soft Spot er plata vikunnar á Rás 2.

Ég held að fólk geri sér ekki almennt grein fyrir því hversu mikilvægt það var er Reykjavíkurdætur hófu að myndast í kringum sérstök rappkvennakvöld fyrir sjö árum síðan. Viðbrögðin við því voru um margt sorglega fyrirsjáanleg og í hárréttum takti við stöðuna sem konur þurfa að glíma við í hinni vítt skilgreindu dægurtónlistarsenu. Frá fyrsta degi þurftu þær að standa fyrir máli sínu, útskýra, taka við ótrúlegum hroða í formi hótanna og illu umtali og svara fyrir það að þær „geti þetta ekki“. Þetta er ástæðan fyrir illri nauðsyn þess að búa til „öruggt svæði“ fyrir kvenfólk svo það fái hreinlega frið til að gera það sem hugurinn býður.

Sviðið er nokkurn veginn þannig að strákar geta rappað að vild, verið eins lélegir og þeir vilja, en aldrei er efast um að þeir geti þetta ekki eða eigi ekki erindi. Þeir starfa í styðjandi umhverfi. Stúlkur búa ekki við slíkt, almennt séð. Hvað þetta varðar hafa Reykjavíkurdætur sýnt ótrúlega seiglu. Þær hafa gefið út plötur og myndbönd, búið til hlaðvarp, sett upp leikrit, komið fram um heim allan og eru margverðlaunaðar. Þegar þær tóku sér pláss á sínum tíma, og spurðu hvorki kóng né prest, leyfðu þær sér að fara yfir allan skalann, vera kynþokkafullar, viðkvæmar, kjaftforar og ástleitnar. Að slíkt kalli ennþá fram heimsendaviðbrögð segir allt um stöðu mála og að langt er í land enn. Það er verkefni okkar allra að fjarlæga þennan aukapakka sem konur þurfa einatt að burðast með.

Þessi nýja plata, Soft Spot, er öðruvísi en áður fram komin verk. Fyrsta breiðskífan var áleitin og frökk, stefnuyfirlýsing þar sem teningum var kastað. Soft Spot vísar að einhverju leyti í titilinn hvað tónlistarlegt innihald varðar, hún er mjúk og einlæg og farið inn á við fremur en út á við í textagerð. Salka Valsdóttir sér að mestu um taktsmíði og útsetningar og flæðið er öruggt út í gegn. „Late Bloomers“ ýtir henni úr vör og undirstingur þetta, hæglætissmíð sem tekur sér tíma, sálarrík og svöl.

Lögin eru af ýmsum toga, þó að línan sé svona að mestu. „Fools Gold“, sem er harðneskjulegt, gengur illa upp að mínu mati, leifar af eldra skapalóni dætrana sem passa illa. „Lófatak“ er hins vegar frábærlega heppnað, draugalegt undirspil sem kallast vel á við öruggt rappið, lag sem gengur fullkomlega upp. Platan rúllar á milli þessara póla út í gegn, þó nær þeim árangursríkari. Síðasta lagið, „DTR“, er svo gott sem algert sálarpopp, meira r og b en rapp og vel heppnað er það, vísar mögulega til framtíðarstefnu. 

Dæturnar hafa sýnt meistaralega takta í gegnum tíðina við að ýta á takka sem enginn vill að þær snerti. Lagatitill eins og „A Song to Kill Boys to“ er snilld (og lagið flott, prakkaralegt) og umslagið er giftusamlegt líka. Ég er að horfa á umslag sem er á Spotify, hvar stúlkurnar eru, svo gott sem berar, fastar inni í sleikjó. Megi Reykjavíkurdætur ríkja lengi vel. Það er allra hagur.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Verðum alltaf Reykjavíkurdætur á Íslandi“

Tónlist

Þeir sem segja ljóta hluti hafa ekki hlustað

Tónlist

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

Tónlist

Reykjavíkurdætur tilnefndar til verðlauna ESB