Rannsókn á Samherjaskjölum teygir sig til níu landa

29.05.2020 - 22:40
Mynd með færslu
 Mynd: Henry van Rooi - The Namibian
Ed Marondedze, ríkislögmaður Namibíu, segir að stjórnvöld þurfi þrjá mánuði til viðbótar til að ljúka rannsókn á spillingarmáli tengdu Samherjaskjölunum. Þetta kom fram við réttarhöld í dag þegar Marondedze, krafðist þess að mennirnir sjö sem eru ákærðir í málinu verði áfram í haldi. Hann sagði rannsóknina flókna og yfirgripsmikla og að hún væri unnin í samstarfi við yfirvöld í níu löndum, meðal annars hér á landi og í Noregi. Þinghaldi í málinu sjálfu hefur verið frestað til 4. september.

Þetta kemur fram á vef Informante, sjónvarpsstöðvarinnar NBC í Namibíu og The Namibian.

Sjömenningarnir, sem hafa setið í gæsluvarðhaldi um nokkurt skeið, vilja að þeim verði sleppt. Þeir segja ekkert liggja fyrir um hvenær rannsókn ljúki og að hún hafi staðið yfir síðan 2014.

Á vef Informante kemur fram að Marondedze hafi sagt að mennirnir ættu sér samstarfsmenn á Íslandi og Angóla. Verjendur mannanna kröfðust þá svara við því hvort þessir samstarfsmenn yrðu einnig ákærðir í Namibíu og efuðust um framsalssamninga við þau lönd. 

Þá bentu þeir á að namibískum yfirvöldum hefði gengið illa að fá önnur lönd til samstarfs við sig.  Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, sagði í samtali við fréttastofu í vikunni að þeim hefðu borist nokkrar réttarbeiðnir frá Namibíu. Þær væru bara í sínum farvegi. Þá hefði hann verið í samskiptum við ríkissaksóknaraembættið í Namibíu.

Marondedze sagði rannsóknina flókna og stjórnvöld þyrftu tíma til að klára hana. Glæpirnir sem mennirnir sjö væru ákærðir fyrir væru ekki einfaldir. Þeir hefðu krafist fundarhalda, símtala, samskipta í gegnum netið og fjármálastofnana.

Búist er við að dómstóll í Namibíu kveði upp úrskurð sinn í næstu viku um hvort mönnunum verði sleppt.

Á Twitter-síðu The Namibian kemur fram að réttarhöldunum í málinu sjálfu hafi verið frestað til 4. september.  Saksóknari er sagður hafa fallist á að þetta verði síðasti fresturinn til að ljúka við rannsóknina.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi