Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öllum aðstoðarmönnum tollvarða sagt upp á Seyðisfirði

29.05.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Tollvörður á Seyðisfirði
Tollurinn hefur sagt upp öllum aðstoðarmönnum tollvarða á Seyðisfirði, sex talsins. Þeir hafa hlaupið til og sinnt afgreiðslu ferjunnar Norrænu. Í staðinn verða tollverðir sendir austur sem liðsauki á ferjudögum. Breytingin leggst illa í heimamenn. Formaður bæjarráðs telur að ekki sé hægt að treysta á að tollverðir komist milli landshluta á veturna.

„Þetta er grafalvarlegt mál að það sé verið að færa störf á landsbyggðinni til Reykjavíkur. Þetta er tekjutap fyrir kaupstaðinn. Þetta er fólk sem borgar hér útsvar og mér finnst það gjörsamlega ólíðandi að vera að flytja þessi störf og ætla að hagræða með því að fljúga fólki frá Reykjavík til að vinna störfin,“ segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður og formaður bæjarráðs á Seyðisfirði.

Fengu greitt fyrir hálfan dag

Auk þessara aðgerða á Seyðisfirði var samtals sex starfsmönnum sagt upp annars staðar á landinu. Áfram verða tveir tollverðir í fullu starfi á Seyðisfirði og tveir á Eskifirði en fleiri þarf til að afgreiða ferjuna. Af þessum sex sem uppsagnirnar ná til á Seyðisfirði voru fjórir í föstu hlutastarfi en tveir til viðbótar aðeins á sumrin. Þeir fengu þær skýringar að tollurinn hefði misst sértekjur vegna falls WOW og COVID-19 og ekki væri vilji til að hafa aðstoðarmenn tollvarða í hlutastarfi. Þeir fengu aðeins greitt fyrir um hálfs dags vinnu við hverja komu Norrænu.

Tollverðir gætu ekki komist austur

Stór fíkniefnamál hafa komið upp á Seyðisfirði og óttast Rúnar yfirhafnarvörður að breytingin geti bitnað á tollskoðun ferjunnar. Það þarf nú ekki nema bara að horfa á vetrarfærðina. Þegar afgreiðsla er að vetrarlagi og það er ekki hægt að koma fólki hér austur. Þá erum við að tala um kannski 3-4 starfsmenn sem gætu hugsanlega komið að afgreiðslunni í staðinn fyrir 6-8 venjulega þannig að þetta kemur til með að bitna á þjónustunni sem er veitt líka. Það er alveg augljóst,“ segir Rúnar Gunnarsson.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV