Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Land virðist farið að rísa við Þorbjörn á ný
29.05.2020 - 17:03
Vísbendingar eru um að landris sé hafið að nýju við fjallið Þorbjörn norðan Grindavíkur, samkvæmt gögnum Veðurstofunnar. Það gerist þó hægt og þörf er á meiri gögnum til þess að fullyrða frekar um stöðuna.
Landris hafði ekki mælst síðan um miðjan apríl, sem benti til þess að kvikuinnflæði á svæðinu væri lokið í bili. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, sagði við fréttastofu á þriðjudag að enn væri virkni á svæðinu.
„Við vitum að svona virkni er hrinukennd og við eru líka svo sem búin að sjá það síðan þetta hófst í lok janúar að þetta gengur í svona smá bylgjum. Þannig að ég býst alveg eins við því að þetta taki sig upp að nýju,” sagði Kristín þá.
Rúmlega 120 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga frá 20. maí til 27. maí, sem er nokkuð minni virkni en í vikunni á undan þegar þeir voru um 200.
Óvissustig vegna landriss er enn í gildi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.