Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

HSA býr sig undir umfangsmiklar sýnatökur í Norrænu

29.05.2020 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mörg hundruð erlendir ferðamenn eru væntanlegir til Seyðisfjarðar með ferjunni Norrænu eftir 15. júní þegar krafa um sóttkví fellur niður. Umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi er bjartsýnn á að hægt verði að taka öll þau sýni sem þarf.

Mörg hundruð erlendir ferðamenn eru væntanlegir til Seyðisfjarðar með ferjunni Norrænu eftir 15. júní þegar krafa um sóttkví fellur niður. Umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi er bjartsýnn á að hægt verði að taka öll þau sýni sem þarf.

200, 350 og 622 farþegar væntanlegir

Norræna siglir á milli Danmerkur og Seyðisfjarðar í hverri viku með viðkomu í Færeyjum. Hún flytur á hverju ári um 25 þúsund ferðamenn til landsins, langflesta að sumri. Strax 17. júní eru 200 farþegar væntanlegir og 350 í næstu ferð á eftir. Í skýrslu um opnun landsins og sýnatöku á landamærum segir að ef bókanir gangi eftir reyni fjöldinn verulega á Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þar ætla stjórnendur að hafa allt tilbúið. „Ég er alveg viss um að við höfum það þegar að því kemur að þetta raungerist sem er ekki fyrr en 15. júní. Þar búum við að samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og HSA að taka gríðarlegan fjölda sýna. 1500 sýni á rúmlega helgi. Þar er komin mikil þekking í hópi starfsmanna sem við byggjum á núna,“ segir Pétur Heimisson, umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi.

Þann 1. júlí eru hins vegar 622 farþegar væntanlegir. Þá verður komin reynsla á sýnatökuna og í ljós kemur hvort styrkja þurfi HSA til að ráða við slíkan fjölda. Til greina kemur að aðstaða til sýnatöku verði sett upp um borð í Norrænu og hefjist um leið og skipið leggst að bryggju.

Kappsmál að koma sýnum í greiningu samdægurs

Í skýrslu um opnun landsins er gert ráð fyrir að þeir sem koma í gegnum Keflavík megi bíða á náttstað eftir niðurstöðum. Slík bið gæti orðið lengri á Seyðisfirði. Ekki verður hægt að greina sýni á Austurlandi og því kappsmál að koma þeim samdægurs á Landspítalann. Smyril Line hefur skoðað möguleika á að fá fyrirtæki til að taka sýni áður en skipið leggur af stað frá Danmörku en fullnægjandi próf voru ekki í boði. Á meðan krafa er um svokölluð PCR-próf þurfa sýnin að fara í greiningu til Reykjavíkur. „Það er þá eitt af því sem við þurfum að leggjast yfir ásamt mörgum öðrum hvernig sá verkferill lítur út. Til dæmis að samræma sýnatökutíma við flugtíma. Nú er bara flogið einu sinni á dag og þá skiptir máli nákvæmlega hvenær dagsins flugið er þennan dag sem Norræna kemur,“ segir Pétur.

Heilsuvottorð gætu runnið út á leiðinni

Þá mega heilsuvottorð ekki vera eldri en fjögurra daga gömul og mögulega dugar sá tími ekki Norrænufarþegum, vottorð gætu runnið út á leiðinni. Skipið er þrjá daga í siglingu til Íslands og sumir hafa þurft að keyra langa leið til Danmerkur til að komast í skipið. Unnið er að lausnum í samráði við sóttvarnalækni.

„Ég er bjartsýnn á að þetta gangi vel og byggi það á því sem hefur verið hér fram að þessu, víðtækt samráð undir dyggri stjórn sóttvarnarlæknis og ríkislögreglustjóra og þannig munum við ábyggilega landa þessu,“ segir Pétur Heimisson, umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi.

Horfa á frétt

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV