Hægt að sjá í biðskýli hve langt er í næsta vagn

29.05.2020 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Farþegar Strætó geta frá og með deginum í dag séð í stafrænum biðskýlum hversu margar mínútur eru í næsta vagn. Kveikt verður á kerfinu eftir hádegi í dag.

Rauntímaupplýsingar koma fram í LED-skýlum á 56 biðstöðvum Strætó.  Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að stefnt sé að því að fjöldi skýla sem sýnir þessar upplýsingar verði um 100 fyrir árslok. Í tveimur efstu línum á auglýsingaskjám biðskýla mun sjást hversu margar mínútur eru í næsta vagn. Til stendur að gera þessar upplýsingar einnig aðgengilegar í Strætó-appinu svo notendur geti nálgast rauntímaupplýsingarnar í hvaða biðstöð sem er. 

Klappið tekið í notkun um áramót

 

Í lok ársins verður tekið upp nýtt greiðslufyrirkomulag í strætisvögnum, segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó. Þá verður hægt að kaupa Klappið, sem er nýtt strætókort með greiðsluþaki sem á að tryggja að farþegi greiði ekki meira en það sem er hagkvæmast, pappakort með örgjörva og nýtt app í símum. Guðmundur Heiðar segir að í nóvember verði nýja greiðslukerfið tekið í prófun með því að selja ákveðin strætókort með örgjörvum. 

Guðmundur Heiðar segir að smám saman verði hætt að taka við strætómiðum og peningum í vögnunum en engin tímasetning sé á því. Þá sé gert ráð fyrir því að í öðrum fasa breytinga á greiðslufyrirkomulagi verði hægt að nota snertilaus greiðslukort í vögnunum. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi