Forréttindi að fá að kjósa sér forseta

Mynd: RÚV/Vilhjálmur / RÚV/Vilhjálmur
Forseti Íslands gerir ekki ráð fyrir að gera miklar breytingar á embættinu, fari svo að hann verði endurkjörinn. Hann segir forréttindi að fá að kjósa sér forseta og að það hafi komið sér ánægjulega á óvart hversu mörgu góðu fólki hann hefur kynnst í forsetatíðinni. Fréttastofa heldur áfram umfjöllun um forsetakosningarnar, sem verða 27. júní.

Kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar lýkur 31. júlí en það hefur legið fyrir frá því að hann flutti nýársávarp sitt að hann myndi sækjast eftir endurkjöri, að hans sögn vegna þeirrar velvildar sem hann hefur notið hjá þjóðinni.

Ljúft að kynnast svo mörgum

Hann segir að í megindráttum hafi fátt komið honum á óvart varðandi forsetaembættið, hafandi rannsakað sögu og verk fyrri forseta í sínu fyrra starfi. „Það sem ég kannski sá ekki fyrir og hefur komið mér ánægjulega á óvart er hversu ljúft það er að kynnast svo mörgum svo víða. Sjáðu til dæmis þennan stað, Hringsjá. Ég vissi ekki af þessum stað áður en ég tók við embætti,“ sagði Guðni sem í dag var viðstaddur útskrifarathöfn Hringsjár, sem er náms- og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna slysa, sjúkdóma eða annarra áfalla.  Hefur Guðni verið reglulegur gestur á athöfnum félagsins. „Hér erum við að hjálpa fólki að vera sjálfum sér og öðrum að gagni og að geta verið hérna og sýnt fólkinu hér að það er enginn skörinni neðar í þessu samfélagi. Hér erum við öll í sama liði. Það eiga allir að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr sjálfum sér og örðum til heilla og sá eða sú sem gegnir þessu embætti, embætti forseta Íslands, getur þar lagt sitt lóð á vogarskálarnar.“

Lætur innsæið ráða för

Guðni gerir ekki ráð fyrir stórvægilegum breytingum fari svo að hann nái endurkjöri. Hann muni sem fyrr láta innsæi sitt ráða för. „Að vera ég sjálfur og gera það sem ég vil og fara alla leið. Og halda í gleðina, halda í ánægjuna, en vera alltaf þess fullviss og vera alltaf með það á hreinu að það fylgir mikil ábyrgð þessu starfi.“

Kosningabaráttan verður að sögn Guðna hófstillt en í hans huga eru það þau forréttindi að fá að kjósa sér þjóðhöfðingja sem skipta mestu máli. „Það er ekki gefið í þessum heimi. Við getum valið. Við getum horft á forsetaefni og við getum sagt við okkur sjálf, hvaða eiginleikum á forseti Íslands að búa yfir. Og svo er svarið í huga fólks, kemur í ljós 27. Júní.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi