Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fær bætur eftir 17 tíma fangelsisvist án klæða og dýnu

29.05.2020 - 22:50
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða tyrkneskum ríkisborgara af kúrdískum uppruna 500 þúsund krónur í miskabætur vegna harðræðis lögreglunnar. Maðurinn stefndi ríkinu og taldi afskipti lögreglu af sér hafa einkennst af tungumálaörðugleikum og fordómum gagnvart múslimum. Ríkið sagði manninn sjálfan hafa stuðlað eða valdið aðgerðum lögreglu.

Maðurinn krafðist bóta vegna fjögurra mála sem öll komu upp á árinu 2018 en voru felld niður á rannsóknarstigi.

Í eitt skipti skaut sérsveit  ríkislögreglustjóra manninn með gúmmíkúlu eftir að hann hafði skorið sig á kvið á heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar.  Í öðru máli lagði lögreglan hald á síma mannsins eftir sambýliskonan fyrrverandi sagði hann hafa hótað að birta af sér myndir og í þriðja málinu var hann handtekinn eftir að tilkynning barst um að hann væri að elta sambýliskonu sína ölvaður á bíl.  Héraðsdómur sagði manninn eiga rétt á bótum í því máli enda hefði það verið fellt niður.

Þá gerir dómurinn athugasemdir við að lögreglumenn hafi hvorki kallað til túlk né útvegað manninum lögmann í umrætt sinn þrátt fyrir beiðni hans þar um.  Hann eigi þó ekki rétt á bótum fyrir það.

Þá krafðist maðurinn bóta eftir að lögreglumenn tilkynntu til ríkislögreglustjóra  um hugsanlega hættu af honum  í framhaldi af ummælum sem hann lét falla í samtali við þá. Á það féllst héraðsdómur ekki. 

Aftur á móti taldi dómurinn að maðurinn ætti rétt á bótum eftir að hafa verið handtekinn, grunaður um að hafa brotið gegn nálgunarbanni með því að hóta fyrrverandi sambýliskonu sinni og syni hennar.  

Héraðsdómur segir það sannað að maðurinn hafi verið látin dvelja í um það bil 17 klukkustundir í fangaklefa, klæðalaus, án dýnu og án þess að fá viðhlítandi aðhlynningu.

Dómur telur að í þessu „harðræði lögreglu“ hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart frelsi og persónu mannsins.  Þá undrast dómurinn af hverju það hafi ekki verið aflað aðstoðar geðheilbrigðisstarfsfólks fyrr en að því virðist eftir tæplega 20 klukkustunda gæslu hjá lögreglu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV