Ákærður fyrir kókaínsmygl og milljóna peningaþvætti

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Tveir karlmenn um fimmtugt hafa verið ákærðir fyrir að reyna að smygla tveimur kílóum af sterku kókaíni til landsins með flugi frá Barselóna . Smyglið komst upp fyrir þremur árum. Annar mannanna er einnig ákærður fyrir peningaþvætti en hann er sagður hafa haft 7 milljónir í tekjur sem engar skýringar fundust á.

Í ákærunni er annar mannanna sagður hafi fengið hinn til að ferðast til Barselóna, taka þar við kókaíni frá óþekktum manni og flytja það til Íslands með farþegaflugi.

Hann er sagður hafa látið manninn hafa reiðufé fyrir ferðakostnaði og kaupum á farsíma sem er talinn hafa verið notaður til að eiga í samskiptum við kókaín-salann.

Efnin voru síðan flutt til landsins í ágúst fyrir þremur árum með flugi WOW air. Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli eftir að tollverðir  fundu efnin falin í botni ferðatösku. Lögreglan haldlagði fíkniefnin en kom fyrir gerviefnum í töskunni.

Maðurinn var síðan sóttur á umferðarmiðstöðina BSÍ af hinum manninum sem ók honum heim en sótti síðan ferðatöskuna skömmu síðar. Hann var svo handtekinn á heimili í Hafnarfirði.

Sá sem lagði á ráðin um smyglið er einnig ákærður fyrir peningaþvætti.

Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að við skoðun á reikningum mannsins hafi komið í ljós tekjur upp á rúmar þrjár milljónir sem hægt var að rekja.  Og svo tekjur upp á 7 milljónir sem ekki var hægt að rekja og virðast að mestu leyti hafa verið innlagnir frá einstaklingum.

Þá hafði maðurinn sjálfur lagt inn rúma hálfa milljón í reiðufé sem er sögð óútskýrð á reikning sinn. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

Sömu tveir menn hlutu ásamt þremur öðrum dóm fyrir 12 árum þegar þeir voru sakfelldir fyrir eiga þátt í að smygla 700 grömmum af kókaíni til landsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi