Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Á von á jákvæðum fréttum varðandi ferðir til Noregs

29.05.2020 - 12:48
Erlent · Innlent · COVID-19 · Danmörk · Eistland · Ferðamál · ferðamenn · Finnland · Færeyjar · Noregur · Stjórnmál
Guðlaugar Þór Þórðarson utanríkisráðherra í viðtalið við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, á von á jákvæðum fréttum varðandi ferðalög milli Íslands og Noregs á næstunni. Tilkynnt hefur verið að Íslendingar, Norðmenn og Þjóðverjar megi ferðast til Danmerkur frá 15. júní.

„Ég átti bæði samtöl við norska og danska utanríkisráðherrann í gær og við eigum sömuleiðis von á jákvæðum fréttum frá Noregi. Við höfum lagt á það áherslu að norrænu ríkin vinni saman að þessu máli,“ sagði Guðlaugur Þór í viðtali við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í hádegisfréttum.  

Utanríkisráðherra segir að ástæður þess að verið sé að opna fyrir ferðalög Íslendinga séu tvenns konar. „Annars vegar að við höfum verið að standa okkur vel og menn líta til þess en sömuleiðis höfum við verið að vekja athygli annarra ríkja á mikilvægi þess að opna og við erum ekki einungis að fá þessar jákvæðu fréttir frá Danmörku, heldur sömuleiðis getum við farið til Eistlands 1. júní og til Færeyja 15. júní, þannig að þetta er smátt og smátt að opnast fyrir okkur.“

Hvað varðar ferðalög til Finnlands kveðst Guðlaugur Þór bjartsýnn almennt þegar komi að Norðurlöndunum og hafi lagt á það áherslu að þau vinni saman. Samvinnan hafi verið mjög góð á vegum borgaraþjónustu ríkjanna en það eigi eftir að koma í ljós hvenær ferðalög til Finnlands geti hafist. Það sem þau hafi vitað hafi sýnt sig, að það sé auðveldara að loka landamærum en að opna þau. 

Icelandair hefur flogið nokkrum sinnum í viku til Stokkhólms í Svíþjóð. Utanríkisráðuneytið ráðleggur Íslendingum enn að ferðast ekki milli landa. Þetta er eitt af því sem verið er að endurskoða, að sögn utanríkisráðherra. „En þetta er að gerast mjög hratt og við auðvitað skoðum þetta mjög hratt en við tökum ekki ákvarðanir um þessa hluti án þess að fá ráðleggingar frá okkar helstu sérfræðingum.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir