Svandís ætlar ekki að tjá sig í bili vegna ummæla Kára

Mynd með færslu
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.  Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlar ekki að tjá sig í bili vegna ummæla Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í Kastljósi í gærkvöldi. Þar sagði hann að ekki hafi verið haft samband við ÍE vegna fyrirhugaðrar skimunar við kórónaveirunni á Keflavíkurflugvelli sem hefjast á 15. júní.

Svandís sagði í Kastljósi í fyrrakvöld ekki útilokað að farið verði í samstarf við Íslenska erfðagreiningu til að auka afkastagetu í verkefninu. Kári sagði i gærkvöldi ekkert samráð hafa verið haft við Íslensk erfðagreiningu vegna skimuninnar og það komi ekki til greina að fyrirtækið komi að verkefninu ef það verði unnið undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins. Samskiptin við ráðuneytið séu með þeim hætti að hann treysti sér ekki til þess.

Kári sagði ennfremur að það hafi komið sér verulega á óvart að í verkefnisstjórn heilbrigðisráðherra um opnun landamæra 15. júní hafi ekki verið fulltrúi frá Íslenskri erfðagreiningu. Verkefnastjórnin skilaði niðurstöðum sínum í fyrradag.

Fréttastofa óskaði eftir því snemma í morgun að fá viðtal við heilbrigðisráðherra en þau svör fengust að Svandís væri upptekin fram að hádegi að minnsta kosti. Þá var óskað eftir skriflegu svari við því hvers vegna ekki hafi verið haft samráð við Íslenska erfðagreiningu vegna skimunar í Keflavík. Ekkert svar hefur borist.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi