Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sekta Símann um 500 milljónir vegna enska boltans

28.05.2020 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samkeppniseftirlitið hefur sektað Símann um 500 milljónir króna vegna mikils verðmunar og ólíkra viðskiptakjara við sölu á enska boltanum á Símanum Sport. Samkeppniseftirlitið telur Símann hafa brotið gegn skilyrðum sem hvíla á fyrirtækinu og telur brotin alvarleg.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er bent á að Síminn hafi selt enska boltann á þúsund krónur á mánuði þegar þjónustan var hluti af Heimilispakkanum, en 4.500 krónur þegar hún var seld án þess að önnur þjónusta væri keypt samhliða.

„Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er að verðlagning Símans á Enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini,” segir í niðurstöðu eftirlitsins.

Brotin séu til þess fallin að styrkja stöðu Símans á sjónvarpsmarkaði og efla enn frekar stöðu fyrirtækisins á fjarskiptamörkuðum þar sem staða Símans er sterk fyrir.

Síminn brást ekki nægilega við

Sýn hf. kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vorið 2019 og taldi að verðlagningin fæli í sér alvarlegar samkeppnishömlur. Eftirlitið gerði Símanum ljóst að það myndi brjóta í bága við skilyrðin. Síminn bauð keppinautum sínum í kjölfarið heildsölusamninga um sölu á enska boltanum, en gerði ekki nóg svo eftirlitið felldi rannsókn sína niður.

„Samkeppniseftirlitið telur að framangreind brot séu alvarleg og til þess fallin að skaða hagsmuni almennings til lengri tíma, á mörkuðum sem skipta neytendur og efnahagslífið miklu máli. Því sé óhjákvæmilegt að leggja sektir á Símann vegna brotanna. Er það áhyggjuefni að Síminn hafi á ný gerst brotlegur með alvarlegum hætti,” segir í niðurstöðunni.