Segir meirihlutann ekki taka mið af Ríkisendurskoðun

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Formaður velferðarnefndar segir að meirihluti nefndarinnar hafi ekki tekið tillit til ábendinga ríkisendurskoðunar í nefndaráliti sínu um frumvarp um framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem nú er til meðferðar hjá Alþingi. Fulltrúi meirihlutans segir það rangt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í dag kemur fram að fyrirtæki sem séu góðum rekstri hafi nýtt sér úrræðið en skýrt sé að ætlunin með lögunum sé að styðja við fyrirtæki í rekstrarvanda. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað.

Velferðarnefnd Alþingis skilaði í dag breytingatillögum og álitum varðandi frumvarp félagsmálaráðherra um framlengingu hlutabótaleiðarinnar. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, gagnrýnir meirihluta nefndarinnar og segir hann ekki hafa tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar við gerð nefndarálits síns. 

„Og við í minnihlutanum tókum þessum ábendingum mjög alvarlega og erum að koma með tillögur til breytinga á þessu þannig að við gerum allt sem við getum til þess að girða fyrir misnotkun á þessu úrræði,“ segir Helga Vala. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og fulltrúi meirihluta nefndarinnar vísar því á bug að nefndin hafi ekki tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar. „Það er bara algjörlega rangt. Þetta frumvarp endurspeglar álitið eins og það er og það er hægt að lesa það bara í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að þeir lýsa yfir ánægju sinni yfir því að í þessu frumvarpi er tekið á því sem var kannski ekki gert í fyrra frumvarpi vegna þess að það bar brátt að, að herða skilyrði og viðurlög og eftirlit,“ segir hún. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi