Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ríkisendurskoðun vill betra eftirlit með hlutabótaleið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Icelandair fékk tæpan milljarð úr ríkissjóði vegna hlutabótaleiðarinnar, að því fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina sem stefnt er að birt verði opinberlega síðar í dag og unnin var fyrir Alþingi. Ríkisendurskoðandi gagnrýnir skort á eftirliti með fyrirtækjum sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina.

 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að í skýrslunni sé það gagnrýnt að Vinnumálastofnun virðist hafa frestað fram á haust eftirliti með þeim fyrirtækjum sem nýta sér úrræðið og hvort þau uppfylli raunverulega skilyrði til þess að setja starfsfólk sitt á hlutabætur.

Þarf að styrkja og efla eftirlit strax

„Ríkisendurskoðandi ítrekar mikilvægi þess að Vinnumálastofnun fari beint í það núna að styrkja og efla eftirlit með notkun hlutabótaleiðarinnar og hvetur líka ráðuneytið áfram í þeim efnum að veita vinnumálastofnun viðeigandi aðstöðu og stuðning til að geta sinnt því eftirliti í rauntíma,“ segir Þórhildur Sunna.

Í skýrslunni kemur fram að það sé til bóta að þrengja eigi skilyrði fyrir þau fyrirtæki sem geti nýtt þess leið. Hins vegar komi skýrt fram í lögskýringagögnum til hvers úrræðin voru ætluð. Aðsóknin í úrræðið hafi verið meiri en lagt hafi verið upp með. 

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi segir í samtali við fréttastofu að ríkisendurskoðun hafi ákveðið að nýta nýtt ákvæði um heimild til að fara í samtímaeftirlit með nýtingu ríkisfjár þegar miklir hagsmunir séu í húfi og gera úttekt á hlutabótaleiðinni. Ljóst sé að úrræðið hafi reynst mun dýrara en lagt hafi verið upp með þegar lögin voru samþykkt. Alls hafa um 37 þúsund manns fengið hlutabætur en í lögunum var gert ráð fyrir að þeir yrðu 10-20 þúsund.

Í skýrslunni eru upplýsingar um þau fyrirtæki sem nýttu hlutabótaleiðina fyrir starfsfólk sitt og hve háa upphæð hvert fyrirtæki fékk. Mest rann til starfsfólks Icelandair, tæpur milljarður. 

Skýra þarf reglur betur

Eitt af því sem bent er á í skýrslunni er að skýra þurfi betur hvað samdráttur í rekstri og verulegur samdráttur í rekstri þýði, að sögn Þórhildar Sunnu. Mikilvægt sé að reglurnar séu skýrar og afdráttarlausar þegar verið sé að útdeila opinberu fé.  

Velferðarnefnd fjallar nú um frumvarp félagsmálaráðherra um framlengingu hlutabótaleiðarinnar. Þórhildur Sunna segir skýrsluna mikilvægt innlegg í þá umræðu svo hægt sé að fara yfir kosti hennar og galla, hvernig hún hafi virkað og hvaða fyrirtæki séu að notfæra sér hana og um hvaða upphæðir sé að ræða. „Skýrslan er miklvægt innlegg inn í umræðu þingsins um þetta mál sem er væntanlega á föstudaginn,“ segir hún.