Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óendanleg uppspretta gleði og fegurðar

Mynd: RÚV / RÚV

Óendanleg uppspretta gleði og fegurðar

28.05.2020 - 14:15

Höfundar

„Það er svolítið merkilegt að þessi fjöldi fugla komi til landsins. Mér finnst það alltaf jafn makalaust hvernig litlir fuglar eins og þúfutittlingurinn kemst alla þessa leið á hverju ári. Það er leyndardómur fyrir manni og heillandi,“ segir Árni Árnason kennari, höfundur og þýðandi sem opnaði ljósmyndasýninguna Sumargestir í Listhúsi Ófeigs á dögunum.

Á sýningunni eru 60 ljósmyndir af algengum fuglum í náttúru Íslands, flestum í nágrenni Reykjavíkur. „Þetta eru að mestu leyti fuglar sem koma hingað á vorin til að verpa, koma upp ungum sínum og fara svo á haustin. Á þessari sýningu eru um 40 tegundir, flestar algengir fuglar,“ segir Árni. 

Myndirnar sýna brot úr fjölbreyttum aðstæðum og lífshlaupi viðfanganna. „Atferli fugla er heillandi og skemmtilegt að fylgjast með því. Til dæmis hrossagaukurinn, hvernig hann dansar á vorin þegar pörin eru að draga sig hvert að öðru. Aðrir fuglar eins og flórgoðinn synda mjög samræmdan dans af botninum með drasl sem þeir nota í hreiðrið sitt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flórgoðar deila með sér fengnum

Dregur fugla ekki í dilka

Við opnun sýningarinnar fluttu dætur Árna, Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað óperusöngkona og Arngunnur Árnadóttir klarinettuleikari, íslensk og erlend sönglög tengd fuglum. 

Aðspurður segist hann ekki viss hvaða fugl sé í mestu uppáhaldi hjá þjóðinni.„ „Ég hef ekki sjálfur verið að draga fugla í dilka en mörgum er illa við hrafninn. Hann náttúrlega rústar hreiðrum og rænir eggjum. Lóan hefur lengi þótt nokkuð öruggur vorboði og krían. Ég held að minn uppáhaldsfugl sé þúfutittlingurinn. Mér finnst það pottþétt merki um vorkomuna þegar hann er farinn að snuðra á sínum svæðum.“

Falleg augnablik

Þegar rýnt er í líf og atferli fugla má sjá margt líkt með samfélagi manna. „Ég er að reyna að ná fallegum myndum og fallegum augnablikum. Það er ýmislegt sem að við getum fundið hliðstæðu við í eigin lífi þegar við horfum á fuglana, eins og foreldrarnir þegar þeir reyna að hafa fyrir ungunum sínum og hvernig fuglarnir haga sér þegar þeir syngja og kalla á maka og þess háttar. Þetta er óendanleg uppspretta gleði og fegurðar,“ segir Árni. 

Sýningin stendur til 20. júní. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Mannfuglar gera tónlist úr hljóðum fugla

Innlent

Sjaldgæfir fuglar staldra hér við