Mikill minnihluti landsmanna með mótefni við COVID-19

28.05.2020 - 19:54
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Mælingar Íslenskrar erfðagreiningar á mótefni við COVID-19 hafa leitt í ljós að 0,9 prósent þjóðarinnar, fyrir utan þau sem voru með staðfest smit og í sóttkví, eru með mótefni við kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum. Helstu kórónuveirusérfræðingar landsins funduðu í dag í Íslenskri erfðagreiningu.

„Helsta niðurstaðan er sú að ef þú tekur út fyrir sviga þá sem voru með staðfesta sýkingu og þá sem fóru í sóttkví, þá er 0,9 prósent þjóðarinnar með mótefni gegn veirunni, sem sagt 0,9 prósent af þjóðinni sem hefur komist í snertingu við þessa veiru að því marki að þurfa að mynda mótefni,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum. 

Það þýði að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sé veikur fyrir veirunni. „Mjög lítill minnihluti er orðinn ónæmur fyrir veirunni þannig að ef það blossar upp aftur smit þá verðum við að bregðast við hratt og mjög ákveðið.“ Hlutfallið er svipað og Kári bjóst við.  

Íslensk erfðagreining tekur þátt í tilraun til að búa til mótefni við veirunni í samvinnu við kanadíska vísindamenn. Kári segir gaman að fá að vera með í þeim rannsóknum. „Það fer þannig fram að það eru einangruð hvít blóðkorn, sem búa til mótefni úr sjúklingum, og síðan eru valdar þær frumur, hvít blóðkorn sem að búa til mótefni, gegn veirunni sjálfri. Þá notar maður eggjahvítuefni úr veirunni til þess að velja og síðan er búið til það mótefni sem að hvítu blóðkornin hafa myndað og búin til eftirmynd af því og það notað til þess að búa þetta til í mjög miklu magni.“ Hann kveðst ekki í nokkrum vafa um að þeim eigi eftir að takast að búa til mótefni en að það sé spurning hve langan tíma það eigi eftir að taka.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi