Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kenna fólki að koma auga á falsfréttir

28.05.2020 - 14:01
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Falsfréttir er hugtak sem hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu. Það vísar til frétta sem geyma misvísandi eða hreinlega rangar upplýsingar. Stoppa, hugsa, athuga, er nýtt átak Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að fræða almenning um leiðir til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Hugtakið falsfréttir var lítt þekkt fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 en komst á flug eftir þær. Umræða um falsfréttir varð svo enn háværari eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út og er það ein ástæða þess að Fjölmiðlanefnd hóf átakið núna. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdarstjóri Fjölmiðlanefndar, var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 þar sem hún ræddi um verkefni. „Það sem kom í ljós eftir að þessi heimsfaraldur fór af stað, að samhliða honum var annar faraldur sem fór líka mjög hratt af stað sem má kalla staðleysufaraldur,” segir Elfa Ýr. 

Hún segir að ákveðið tómarúm myndist þegar fólk ber ekki traust til stjórnvalda og þá geta alls kyns upplýsingar komið fram sem eru ekki endilega réttar. Fjölmiðlanefnd Evrópu varð vör við aukið magn falsfrétta í umferð á Ítalíu og Spáni um leið og faraldurinn náði þangað. Hér á landi sé þó traust til stjórnvalda mikið en engu að síður hafi falsfréttir náð dreifingu á samfélagsmiðlum. „Það er ástæðan fyrir því að það var farið í þetta átak núna. En auðvitað er þetta bara árveknisátak til að auka vitund almennings um rangfærslur bara almennt, að kenna fólki hvað þarf að varast,” segir Elfa Ýr og tekur fram að það sé alls ekki verið að segja fólki að nota ákveðna miðla og forðast aðra. Elfa Ýr segir að erfitt sé að finna einhvern gullinn meðalveg á milli frétta sem innihalda misvísandi upplýsingar sem eru þó ekki beinlínis hættuleg og hins vegar frétta sem innihalda hættuleg skilaboð. „Það sem er alvarlegt með COVID-19 er að það eru rannsóknir sem sýna það að fólk hefur raunverulega verið að detta í þessar gildrur. Við sjáum til dæmis faraldur í því að fólk hefur verið að drekka hreint alkóhól í Íran, sem dæmi,” segir Elfa Ýr og bendir einnig á alls kyns samsæriskenningar sem hafa farið á flug á samfélagsmiðlum, til dæmis að COVID-19 sé venjuleg flensa og geta slíkar kenningar meðal annars orðið til þess að fólk leitar sér ekki aðstoðar ef það finnur til einkenna. Ein lífseigasta kenningin er að 5G fjarskiptamöstur valdi sjúkdómnum og í Bretlandi hafa um 200 árásir verið skráðar á fjarskiptamöstur- og turna þar í landi. 

Nýleg rannsókn frá Noregi sýndi fram á að 40% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni eiga í miklum erfiðleikum með að sjá muninn á falsfréttum og alvöru fréttum frá fréttamiðlum, að sögn Elfu, og því eldra sem fólk er því líklegra sé að þau eigi erfitt að greina þar á milli.

Hægt er að kynna sér átakið á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.

Nánar var rætt við Elfu Ýr í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

gudmundurp's picture
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson