Kári reiknar með að skima ef sóttvarnalæknir stjórnar

Mynd: Karl Sigtryggsson / Karl Sigtryggsson
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir koma til að greina að Íslensk erfðagreining taki þátt í skimun á ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli vegna COVID-19. Forstjórinn fundaði með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í morgun. Hann sagði í gær að fyrirtækið yrði ekki með. Hann telur eðlilegast að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hafi yfirumsjón með málinu, sem sé nú undir forsætisráðuneyti.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í Kastljósi í fyrrakvöld að ekki væri útilokað að farið yrði í samstarf við Íslenska erfðagreiningu til að auka afkastagetu við skimun á flugvellinum. Kári sagði í þættinum í gærkvöld að ekkert samráð hafi verið haft við fyrirtækið vegna skimunarinnar og það komi ekki til greina að Íslensk erfðagreining taki þátt í verkefninu verði það unnið undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Fundur Kára með forsætisráðherra í morgun hafði verið ákveðinn áður en Kári fór í viðtal í Kastljósi í gær. 

Ef sóttvarnalæknir hefur yfirumsjón með skimun ferðamanna ætlar Íslensk erfðagreining að taka þátt í henni. „Við ætlum að aðstoða sóttvarnalækni ef honum verður falið þetta verkefni. Við ætlum að leggja á ráðin, leggja til hugbúnað sem við höfum búið til. Við ætlum að leggja af mörkum getu okkar til að greina þessi gögn og jafnvel ef þörf krefur lána einhver tæki en skimunin sem slík verður aldrei okkar verkefni þó við leggjum kannski eitthvað af mörkum,“ sagði Kári í viðtali við Brodda Broddason í beinni útsendingu í hádegisfréttum.  

Ekki hægt að halda landinu lokuðu til eilífðarnóns

Kári segir að þessi leið sé vel fær, að skima fyrir sjúkdómnum hjá ferðamönnum. „Það er ekki nóg með að mér sýnist þessi leið vera fær. Ég held að þetta sé það eina sem við getum. Við getum ekki haldið þessu landi lokuðu til eilífðarnóns og ég held að því fyrr sem við opnum, því betra.“ Þá sagði Kári að ef landið verði opnað snemma megi búast við tiltölulega fáum ferðamönnum sem gefi tækifæri til að fínstilla þær aðferðir sem notaðar verði til skimunina og eins til að fylgja niðurstöðum hennar eftir. „Þannig að ég held að það sé ekkert val hvort við gerum þetta eða ekki, við verðum að gera þetta.“ 

Segir óskynsamlegt að fela sóttvarnalækni ekki stjórnina

Kári sagði í Kastljósi í gær að hann myndi ekki skima ef verkefnið yrði undir stjórn heilbrigðisráðuneytis. Hann sagði í hádegisfréttum að það sé nú komið undir forsætisráðuneytið. Þá sé eðlilegast að sóttvarnalæknir fari með yfirumsjónsjón þess, það sé í samræmi við sóttvarnalög. „Sóttvarnalæknir og landlæknir héldu utan um hvernig var brugðist við fyrsta kafla faraldursins og það tókst mjög vel. Þjóðin treystir sóttvarnalækni til að höndla mál af þessari gerð.“ Hann hafi sýnt að hann eigi auðvelt með að vinna með öllu því fólki sem þurfi að koma að svona verkefni. Það væri því óskynsamlegt og rangt að fela honum það ekki. 

Íslensk erfðagreining kemur að skimuninni, ef af verður, sem sjálfboðaliðar, segir Kári. „Við þurfum ekki að gera þetta. Við ákváðum að gera þetta á sínum tíma, að skima og rannsaka.“ Þá lúti aðkoman að því hvort þau telji að þau séu að gera með henni gagn. Kári kveðst fullviss um að þau geri bæði gagn með henni og hafi gaman að - ef Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sjái um verkefnið. 

Vonast eftir sátt við heilbrigðisráðherra

Kári hefur ekki vandað heilbrigðisráðherra kveðjurnar, fyrir að hafa ekki ráðfært sig við fyrirtækið áður en tilkynnt var um skimun á ferðamönnum. Hann kveðst þó vonast til þess að það verði hægt að byggja brú á milli Íslenskrar erfðagreiningar og heilbrigðisráðherra, vegna þess að verkefnið eigi heima þar, enda sé það sóttvarnarátak. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi