Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hreinsa upp eftir aðventustorminn og leggja jarðstrengi

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
RARIK hreinsar nú upp brotna rafmagnsstaura og slitnar línur sem liggja enn á jörðu eftir óveðrið mikla í desember. 84 kílómetrar af jarðstrengjum verða lagðir á Norðurlandi í sumar í flýtiverkefnum vegna afleiðinga óveðursins.

150 rafmagnsstaurar í dreifikerfi RARIKs brotnuðu í óveðrinu. Á þriðja tug sláa brotnuðu og svipaður fjöldi lína slitnaði. Vírar og spýtnabrak sjást því á víð og dreif eftir að snjóa tók að leysa. Mikil hreinsun bíður starfsfólks, og áætlað að hún taki tvær til þrjár vikur.

Hvarf undir snjó á erfiðum vetri

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIKs segir heilmikið þurfa að hreinsa. Henni sé lokið í Aðaldal en það sé mikið eftir til dæmis í Hörgárdal, Svarfaðardal, Grýtubakkahreppi og víðar. „Auðvitað hefðum við viljað hreinsa þetta í vetur en veturinn var dálítið harður hérna og mikill snjóavetur þannig að við misstum þetta í rauninni bara undir snjó og klaka,“ segir Tryggvi Þór.

Seinagangur og slysahætta

Bóndi í Hörgárdal hefur kvartað undan seinagangi við hreinsunarstörf, bæði vegna þess að ekki sé hægt að sinna vorverkum á túni sem staurarnir liggi á en líka vegna almennrar slysahættu, til dæmis fyrir hestafólk. 

Tryggvi Þór segir þá forðast að vinna mikið á þeim tíma sem jarðvegur sé viðkvæmur eins og þegar snjóa er að leysa. Það liggi víða enn þá á túnum og það sé stutt liðið frá vetri; „Ég held það sé ekki ásættanlegt að við förum af stað þannig að við skemmum tún og jarðveg, sem við gerum með þessum stóru tækjum.“

Hann segir þó að mögulega hefði verið hægt að fara tveimur vikum fyrr af stað í Hörgárdal, en ekki annars staðar, bleytan sé svo mikil. Það var byrjað að hreinsa í Hörgárdal í gær, það mesta náðist af túnum en starfsmenn þurftu svo frá að hverfa vegna bleytu.

130 km lagðir í jörð á Norðurlandi í sumar

Samhliða hreinsun verða 130 kílómetrar af jarðstrengjum lagðir á Norðurlandi í sumar. 84 kílómetrar eru verkefni RARIKs sem var flýtt vegna afleiðinga óveðursins, af þeim er 21 km á Melrakkasléttu, 11 í Grenivíkurlínu, 18 kílómetrar í Hörgárdal, 11 í Svarfaðardal og 19 í Vesturhópi. Þegar er búið að leggja 4 kílómetra hjá Húsabakka í Skagafirði. Flýtiverkefnin kosta 230 milljónir.

Þá verða 44 kílómetrar lagðir samkvæmt áður samþykktri áætlun, 15 á Vatnsnesi, 8 í Skagafirði og 21 á vestanverðu Tjörnesi.  

„Hörgárdalurinn er að fara í gang núna, við gerum ráð fyrir að Svarfaðardalurinn fari í gang eftir svona tvær vikur. Við erum að byrja núna í dag að leggja út á Tjörnes, síðan mun þetta koma svona smátt og smátt,“ segir Tryggvi Þór.