Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gúrkur hækkuðu í verði eftir febrúarstorminn

28.05.2020 - 20:08
Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist / RÚV/Guðmundur Bergkvist
Útlitið var svart hjá garðyrkjubóndanum í Reykási í Hrunamannahreppi í febrúar. Gróðurhúsin voru mikið skemmd eftir óveður og uppskeran meira og minna ónýt. Nú er starfsemin komin á fullt og hefur verið aldrei meira að gera.

Gróðurhúsin í gróðrastöðinni í Reykási í Hrunamannahreppi urðu illa úti í óveðrinu sem gekk yfir landið um miðjan febrúar. Brotnar rúður skiptu hundruðum og stór hluti uppskerunnar skemmdist.

Nokkrum dögum síðar voru hollenskir sérfræðingar komnir til landsins til að skipta um gler í gróðurhúsinu. Þeim sóttist verkið vel og sex vikum eftir hvellinn var hægt að senda uppskeru úr húsi. Framleiðslustöðvunin hafði áhrif á íslenska neytendur.  „Þetta hafði mjög slæm áhrif. Það þurfti að flytja inn gúrkur og þær voru mjög dýrar úti í heimi akkúrat á þessum tíma þannig að þetta var dýrt út úr búðum. Þetta kom náttúrlega inn í flugi og var kannski ekki alveg það besta,“ segir Reynir Jónsson, garðyrkjubóndi í Reykási.

Tjónið hleypur á tugum milljóna króna. „Þetta eru náttúrlega bara tryggingabætur. Þetta er kannski ekkert alveg uppgert að fullu en  er sjálfsagt einhvers staðar innan við hundrað milljóni. En kannski tjón samfélagsins er mikið meira út af þessum innflutningi.“

Skömmu eftir að uppskerutíminn hófst að nýju braust kórónuveirufaraldurinn út. Ólíkt flestri annarri starfsemi í landinu lagðist garðyrkja ekki á hliðina, þvert á móti jukust umsvifin. „Neytendur hafa tekið mjög vel við sér og það er mikil neysla á íslensku grænmeti og við höfum til dæmis þurft að bæta við fólki hérna til að anna framleiðslunni.“

Magnús Geir Eyjólfsson