Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Enginn í fangelsi á Akureyri í sumar

28.05.2020 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Fangelsismálastofnun
Enginn fangi afplánar refsivist í fangelsinu á Akureyri í sumar. Ekki er til fjármagn til að ráða afleysingarfólk til starfa á Akureyri. Fangar hafa verið fluttir í önnur fangelsi.

Tíu pláss eru í fangelsinu á Akureyri auk þess sem rými er fyrir einn gæsluvarðhaldsfanga. Þar starfa að jafnaði fjórir fangaverðir. Enginn verður  í fangelsinu í sumar, í sparnaðarskyni. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að fangaverðir verði þó áfram við störf í fangelsinu. 

„Þetta er bara hefðbundið aðhald  í rekstri hjá F angelsismálastofnun. Það er okkar hlutverk að vera innan fjárheimilda og við gerum það meðal annars með þessum hætti,“ segir Páll.

Með því að hafa enga fanga í afplánun á Akureyri spari stofnunin um 10 milljónir króna. Stofnunin hafi leitað leiða til að spara, eins og að loka deildum á Litla-Hrauni og Hólmsheiði, og þessi tímabundna lokun á Akureyri sé liður í því. Gert er ráð fyrir að hefðbundin starfsemi hefjist að nýju um miðjan september. Fangar hafi verið fluttir í önnur fangelsi.

„ Þetta var skipulagt með nokkrum fyrirvara þannig að það þurfti bara að flytja einn fanga í annað fangelsi. Hann var fluttur í fangelsið á Hólmsheiði.“ segir Páll.

Í kórónuveirufaraldrinum þurftu fangelsi landsins að ganga úr skugga um að fangar í hverju fangelsi gætu verið settir í sóttkví og passa órofinn rekstur. Páll segir það hafa gengið en faraldurinn hafi tekið á, líkt og hjá öðrum stofnunum. Nú hafi takmörkunum hins vegar verið aflétt og fangelsin starfi nú með hefðbundnu sniði.