Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Abalo tekur við af Sigvalda í Noregi

epa08238202 Paris Saint Germain's Luc Abalo (C) in action against Endre Langaas (R) of Elverum Handball  during the EHF Champions League handball match between Paris Saint-Germain (PSG) and Elverum Handball in Paris, France, 22 February 2020.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA
 Mynd: EPA

Abalo tekur við af Sigvalda í Noregi

28.05.2020 - 16:35
Franska handboltastjarnan Luc Abalo gekk frá óvæntum vistaskiptum sínum til Elverum í Noregi í dag. Hann kemur til liðsins frá Paris Saint-Germain í heimalandinu.

Hægri hornamaðurinn Abalo hefur verið lykilmaður í landsliði Frakka sem hefur verið gríðarsigursælt undanfarin ár. Hann hefur unnið tvö Ólympíugull, þrjá heimsmeistaratitla og þrjá Evróputitla með Frakklandi. Þá hefur Abalo unnið franska meistaratitilinn sjö sinnum, þann spænska tvisvar og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Hinn 35 ára gamli Abalo hefur leikið með Parísarliðinu frá árinu 2012 en samningur hans við liðið rennur út í sumar. Hann ætlaði sér að hætta handboltaiðkun eftir Ólympíuleikana í Tókýó en eftir frestun þeirra fram á næsta sumar hefur Abalo ákveðið að spila eitt ár enn og það í Noregi.

„Ég bjóst aldrei við að spila í Noregi á ferlinum,“ er haft eftir Abalo í tilkynningu Elverum um félagsskiptin í dag. Þar er enn fremur haft eftir Abalo: „Ég spilaði við Elverum með PSG í Hákonshöllinni í Lillehammer fyrir framan 12 þúsund manns. Stemningin og stuðningurinn var engu líkur og það hjálpaði mér við að taka ákvörðun. Það eru slík augnablik sem mig langar að upplifa.“

Abalo kemur til með að taka stöðu íslenska landsliðsmannsins Sigvalda Björns Guðjónssonar hjá Elverum en Sigvaldi, sem einnig leikur sem hægri hornamaður, er á leið til Kielce frá Póllandi í sumar.