Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

WTO gæti komið í veg fyrir yfirtöku á Newcastle

Mynd með færslu
 Mynd:

WTO gæti komið í veg fyrir yfirtöku á Newcastle

27.05.2020 - 06:06
Óvíst er hvort verður af yfirtöku konungsfjölskyldunnar í Sádi Arabíu á enska knattspyrnuliðinu Newcastle United eftir úrskurð Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Stofnunin segir Sáda standa að ólöglegri dreifingu á sjónvarpsefni í gegnum gervihnött og streymi á vefnum. 

Skýrsla WTO um málið er um 130 síður og verður gefin út um miðjan júní. Samkvæmt heimildum Guardian er fullyrt þar að stjórnvöld í Sádi Arabíu standi að baki beoutQ, sem sendir út beinar útsendingar af íþróttaleikjum sem aðrir eiga útsendingarrétt af. Alþjóðaknattspyrnusambandið, knattspyrnusamband Evrópu, enska úrvalsdeildin, spænska úrvalsdeildin og fleiri hafa áður höfðað mál gegn beoutQ vegna þessa. Á sama tíma var málið sent til WTO til rannsóknar. Þar var skorið úr um að Sádar brjóti gegn alþjóðalögum með útsendingu beoutQ. WTO segir augljós tengsl á milli stjórnvalda í Sádi Arabíu og beoutQ útsendingaþjónustunnar.

Búnir að bíða samþykkis í nærri tvo mánuði

Niðurstaðan gæti leitt til þess að ekkert verði af yfirtöku fjárfestingarsjóðs Sáda á 80 prósenta hlut í Newcastle United. Tilboðið þarf að standast próf eigenda og stjórnenda félaga í ensku úrvalsdeildinni. Hafi tilvonandi kaupandi gerst brotlegur við lög sem einnig eru saknæm í Bretlandi getur tilboðinu verið hafnað.

Nærri tveir mánuðir eru liðnir frá því sjóðurinn óskaði eftir grænu ljósi frá forsvarsmönnum úrvalsdeildarinnar um yfirtökuna. Samþykktarferlið tekur vanalega um mánuð. 

Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn með beoutQ í sigtinu

BeoutQ var sent út af Arabsat gervihnattaþjónustunni. Sádiarabíska ríkið á meirihluta í henni og höfuðstöðvar þess eru í Sádi Arabíu. BeoutQ er ekki lengur sent út frá Arabsat, en ólöglegir afruglarar dreifa enn útsendingum frá stórum sjónvarpsstöðvum á borð við bresku stöðvarnar Sky og BT, að sögn Guardian. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi Sádum áminningu í janúar vegna dreifingar beoutQ, og bandarísk stjórnvöld eru með dreifingu þess á forgangslista yfir ólöglega dreifingu á sjónvarpsefni.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Biðlar til stuðningsmanna Newcastle

Fótbolti

Umdeild kaup á Newcastle í sviðsljósinu