Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 20.000 á atvinnuleysisskrá í sumarlok

Mynd: RÚV / RÚV
Ágúst og september geta orðið erfiðir mánuðir þar sem gera má ráð fyrir að atvinnuleysi aukist í sumar, þegar uppsagnartímabili þeirra sem misst hafa vinnuna lýkur. Karl Sigurðsson, vinnumálasérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að gera megi ráð fyrir að um 20.000 manns verði að fullu atvinnulausir er líður á haustið.

Karl var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og segir hann Vinnumálastofnun gera ráð fyrir að atvinnuleysi í sumarlok mælist um 8-9%, en verði um 7,5% þegar horft sé yfir árið í heild.

Í apríllok voru tæp 18% á atvinnuleysisskrá, en verulega hefur fækkað í þeim hópi eftir því sem þeim er nýta hlutabótaleiðina fækkar. Þegar mest var voru um 35.000 manns á hlutabótaleiðinni, en í lok þessa mánaðar stefnir á að fjöldinn verði kominn niður í 19.000. Helmingur þess hóps er að fara í sitt fyrra starf og segir Karl þetta til að mynda vera starfsfólk á hárgreiðslustofum, læknastofum, líkamsræktarstöðvum og sjúkraþjálfarar. 

Hinn helmingur hópsins er hins vegar að missa vinnuna að fullu og fer við það á uppsagnarfrest, sem stjórnvöld styrkja að verulegu leiti í gegnum annað úrræði. Það er hluti þess hóps sem kann svo bætast aftur á atvinnuleysisskrá í sumarlok.

„Við sjáum fram á að ágúst og september geti orðið erfiðir mánuðir hvað þetta varðar,“ segir Karl. 

Starfsfólk ferðaþjónustunnar er áberandi stór hópur þeirra sem misst hefur vinnuna, en minna hefur verið um uppsagnir í sjávartúvegi, iðnaði og byggingaiðnaði. „Það er mjög lítið um það raunar miðað við hve margir vinna í þeirri grein,“ segir Karl og vísar til byggingaiðnaðarins. Hann bætir þó við að uppsagnir hjá þeim greinum sem lítið hafa orðið að segja upp til þessa kunni að eiga eftir að bætast við. Að sama skapi sé þó vonast til þess að ferðaþjónustan taki að rétta úr kútnum á ný í haust og vetur.